Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Valur 23-30 | Langþráður Valssigur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valskonur unnu kærkominn sigur í Mýrinni.
Valskonur unnu kærkominn sigur í Mýrinni. vísir/hulda margrét

Eftir fimm leiki í röð án sigurs vann Valur Stjörnuna, 23-30, í Mýrinni í Olís-deild kvenna í dag. Eftir jafnan fyrri hálfleik voru Valskonur sterkari í þeim seinni.

Lovísa Thompson skoraði tíu mörk fyrir Val og Þórey Anna Ásgeirsdóttir sex. Helena Rut Örvarsdóttir skoraði tíu mörk fyrir Stjörnuna sem hefur tapað þremur leikjum í röð og þarf að passa sig ef liðið ætlar ekki að missa af sæti í úrslitakeppninni.

Leikurinn byrjaði mjög fjörlega þar sem þær Helena og Lovísa fóru mikinn. Þær skiptust á að skora í upphafi leiks og um miðjan fyrri hálfleik voru þær báðar komnar með sex mörk.

Seinni hluta fyrri hálfleiks tókst vörnum liðanna að koma böndum á Helenu og Lovísu og þá hægðist aðeins á markaskorinu.

Fyrri hálfleikurinn var mjög jafn og aldrei munaði meiru en tveimur mörkum á liðunum og þau skiptust á forystunni. Valur endaði fyrri hálfleikinn hins vegar betur, skoraði þrjú síðustu mörk hans og var tveimur mörkum yfir, 13-15, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Valur fór með vindinn í bakið inn í hálfleikinn og nýtti meðbyrinn í seinni hálfleik. Valskonur byrjuðu hann mun betur og komust fimm mörkum yfir, 16-21.

Stjarnan átti í gríðarlega miklum vandræðum með að skora í seinni hálfleik gegn sterkri Valsvörn. Þá átti Margrét Einarsdóttir frábæra innkomu í mark gestanna og varði þrettán skot, eða 54 prósent þeirra skota sem hún fékk á sig. Á meðan var markvarslan ekki mikil hjá Stjörnunni.

Heimakonur skiptu yfir í framliggjandi vörn um miðbik seinni hálfleiks og það riðlaði sóknarleik gestanna um tíma. Á sama tíma snögghitnaði Helena í sókninni og Stjarnan minnkaði muninn í tvö mörk.

Nær komust Stjörnukonur hins vegar ekki. Valskonur fundu lausnir á Stjörnuvörninni og þéttu sjálfar sína vörn.

Valur skoraði fjögur síðustu mörk leiksins, þar af skoraði Elín Rósa Magnúsdóttir þrjú síðustu mörkin, og vann sjö marka sigur, 23-30.

Af hverju vann Valur?

Valskonur léku einn sinn besta leik á tímabilinu í dag. Fyrir utan byrjun leiksins var vörnin sterk og sóknarleikurinn gekk vel, nema á smá kafla í seinni hálfleik. Þá var gríðarlega mikill munur á markvörslu liðanna.

Valur fékk líka framlag úr fleiri áttum í sókninni en Stjarnan. Helena og Eva Björk Davíðsdóttir skoruðu samtals fimmtán af 23 mörkum Garðbæinga á meðan markaskorið dreifðist betur hjá Valskonum. 

Hverjar stóðu upp úr?

Lovísa átti frábæran leik, jafnt í vörn og sókn, og endaði með tíu mörk í aðeins tólf skotum. Þórey Anna átti einnig góða kafla í sókninni sem og Ásdís Þóra Ágústsdóttir. Þá voru Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og Mariam Eradze sterkar í miðri vörn Vals og Margrét átti skínandi góða innkomu í markið.

Helena var langbesti leikmaður Stjörnunnar þótt hún hafi dottið niður í upphafi seinni hálfleiks. Hana vantaði hins vegar meiri hjálp.

Hvað gekk illa?

Garðbæingar þurftu sárlega á framlag frá fleirum að halda í sókninni. Mest mæddi á Helenu sem skilaði sínu en leikmenn á borð við Evu Björk og Sólveigu Láru Kjærnested náðu sér ekki á strik. Þá var varnarleikur Stjörnunnar alltof kaflaskiptur og markvarslan takmörkuð.

Hvað gerist næst?

Á þriðjudaginn tekur Valur á móti botnliði FH. Degi síðar sækir Stjarnan Fram heim í Safamýrina.

Lovísa: Handbolti er ekki eins manns leikur

Lovísa Thompson skoraði tíu mörk í tólf skotum.vísir/hulda margrét

Hljóðið var gott í Lovísu Thompson eftir sigur Vals á Stjörnunni. Lovísa skoraði tíu mörk í leiknum.

„Þetta var mjög góður dagur og ég er rosalega stolt af stelpunum. Þetta var ótrúlega gaman,“ sagði Lovísa.

Fyrri hálfleikurinn var jafn en Valskonur voru sterkari í þeim seinni sem þær unnu, 15-10.

„Við höfum byrjað marga leiki á hælunum þannig að við vorum staðráðnar í að koma inn í leikinn af fullum krafti og planið gekk upp,“ sagði Lovísa.

Valur náði fimm marka forskoti um miðjan seinni hálfleik en Stjarnan kom sér aftur inn í leikinn eftir að hafa skipt yfir í framliggjandi vörn. Lovísu fannst Valskonur leysa hana vel.

„Mér fannst það allt í lagi. Mér leið ekkert illa þótt þær hafi náð smá áhlaupi á okkur. Við vorum skynsamar og erum með snögga leikmenn sem eru góðir maður gegn manni og við náðum að leysa þetta vel,“ sagði Lovísa sem skoraði grimmt í byrjun leiks áður en fleiri leikmenn Vals létu að sér kveða.

„Handbolti er ekki eins manns leikur þannig að það er mjög gott að vera með gott lið. Við höfum staðið okkur rosalega vel á æfingum og það er gott að sýna það loksins fyrir áhorfendunum okkar og sanna fyrir okkur sjálfum að við erum ekki gerðar úr engu.“

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir lék sinn annan leik á tímabilinu í dag eftir að hafa tekið skóna af hillunni. Lovísa er að vonum ánægð með innkomu Önnu Úrsúlu í Valsliðið.

„Anna er bara best eins og allir handboltaunnendur vita. Við erum rosalega heppnar að njóta krafta hennar og bara jess, áfram Anna!“ sagði Lovísa að lokum.

Rakel Dögg: Þetta var bara þannig dagur

Stjörnukonur hafa tapað síðustu þremur leikjum sínum.vísir/hulda margrét

„Mér fannst við klikka í vörninni. Við fengum alltof mörg mörk á okkur. Það var of langt á milli okkar og við hleyptum þeim of auðveldlega í gegnum okkur. Við gerðum okkur erfitt fyrir. Svo var þetta líka færanýtingin hjá okkur, við skutum illa,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari Stjörnunnar, eftir tapið fyrir Val.

Stjarnan var tveimur mörkum undir í hálfleik, 13-15, en snemma í seinni hálfleik var munurinn orðinn fimm mörk, 16-21.

„Mér fannst varnarleikurinn hjá okkur detta niður. En síðan þéttist vörnin og við fengum markvörslu en þá kláruðum við ekki færin okkar. Þetta var bara þannig dagur,“ sagði Rakel.

Stjarnan breytti um vörn um miðjan seinni hálfleik og minnkaði í kjölfarið muninn í tvö mörk. Nær komust Garðbæingar hins vegar ekki.

„Við fórum í sjö á sex en klikkum á færum og fengum á okkur mark yfir allan völlinn. Þetta var bara erfitt,“ sagði Rakel.

Stjarnan hefur nú tapað þremur leikjum í röð og Rakel er eðlilega uggandi yfir stöðunni þótt hún sé ekki farin að örvænta.

„Það er alltaf slæmt að tapa. Þetta er erfið og jöfn deild, fáir leikir eftir og lítill tími til að vinna þessi stig til baka. En ég hef fulla trú á liðinu og mér fannst við eiga frábæra spretti í fyrri hálfleik. Við verðum bara að taka það með okkur,“ sagði Rakel að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira