Handbolti

Ró­legt kvöld hjá Ís­lendingunum | Viktor Gísli með magnaða mark­vörslu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli átti magnaða tvöfalda markvörslu í liði GOG í kvöld.
Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli átti magnaða tvöfalda markvörslu í liði GOG í kvöld. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat / POOL

Segja má að um rólegt kvöld hafi verið að ræða hjá Íslendingaliðunum í Evrópukeppninni í handbolta í kvöld. Viktor Gísli Hallgrímsson átti þó magnaða markvörslu í leik Rhein-Neckar Löwen og GOG. Sjá má vörsluna hér að neðan.

Í B-riðli tók Kristianstad á móti USAM Nimes Gard. Gestirnir voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15-13. Heimamenn komu til baka í síðari hálfleik og tókst á endanum að landa stigi, lokatölur 30-30 í Svíþjóð í kvöld.

Teitur Örn Einarsson skoraði eitt mark í liði Kristianstad. Ólafur Andrés Guðmundsson lék ekki með Kristianstad í kvöld.

Eftir leik kvöldsins er Kristianstad í 3. sæti B-riðils með 11 stig að loknum tíu leikjum. Nimes er á sama tíma í 2. sæti með 12 stig.

Í C-riðli var Magdeburg í heimsókn hjá CSKA Moskvu. Íslendingaliðið var marki yfir í hálfleiki en stakk af í þeim síðari. Lokatölur 35-27 Magdeburg í vil. Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoruðu báðir sitt hvort markið.

Magdeburg er á toppi C-riðils með 18 stig eða níu sigra í aðeins tíu leikjum. CSKA Moskva er í 2. sæti með 14 stig.

Í D-riðli tapaði GOG með átta marka mun gegn Rhein-Neckar Löwen er liðin mættust í Þýskalandi, lokatölur 32-24. Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað hjá Löwen á meðan Viktor Gísli Hallgrímsson varði átta skot í marki GOG.

Löwen er á toppi D-riðils með 17 stig að loknum tíu leikjum á meðan GOG er í 3. sæti með 12 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×