Körfubolti

Antetokounmpo vann spennandi uppgjör við Williamson

Sindri Sverrisson skrifar
Giannis Antetokounmpo og Zion Williamson skiptust á treyjum eftir leikinn í nótt.
Giannis Antetokounmpo og Zion Williamson skiptust á treyjum eftir leikinn í nótt. Getty/Stacy Revere

Gríska undrið Giannis Antetokounmpo hafði á ný betur gegn Zion Williamson í uppgjöri þeirra þegar Milwaukee Bucks unnu 129-125 sigur á New Orleans Pelicans í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Milwaukee hefur þar með unnið fjóra leiki í röð og er með 20 sigra en 13 töp í 3. sæti austurdeildarinnar, tveimur sigrum á eftir Philadelphia 76ers og Brooklyn Nets. New Orleans er í 11. sæti vesturdeildar.

Antetokounmpo skoraði 38 stig í nótt gegn 34 stigum Williamson. Grikkinn tók einnig fleiri fráköst eða 10 og gaf fjórar stoðsendingar, á meðan að Williamson tók átta fráköst og gaf sex stoðsendingar. Þetta var í þriðja sinn sem þessar ungu ofurstjörnur mætast og í öll skiptin hefur Antetokounmpo endað með fleiri stig og fleiri fráköst.

Leikurinn var spennandi allt til loka en leikmenn New Orleans klikkuðu á tveimur þriggja stiga skotum í stöðunni 128-125 og urðu að lokum að sætta sig við tap.

Úrslit næturinnar:

  • Philadelphia 111-97 Dallas
  • Brooklyn 129-92 Orlando
  • New York 140-121 Sacramento
  • Memphis 122-94 LA Clippers
  • Denver 110-112 Washington
  • Milwaukee 129-125 New Orleans
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×