Körfubolti

Nikita dæmd í tveggja leikja bann fyrir olnbogaskotin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikita Telesford í leik með Skallagrímsliðinu.
Nikita Telesford í leik með Skallagrímsliðinu. vísir/vilhelm

Skallagrímskonur verða án lykilmanns í næstu tveimur leikjum sínum í Domino´s deildinni.

Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ hefur tekið fyrir mál Skallagrímsleikmannsins Nikitu Telesford sem varð uppvís að því að gefa tvö olnbogaskot á innan við mínútu í leik í Domino´s deildinni í körfubolta um síðustu helgi.

Nikita Telesford fékk brottrekstrarvillu fyrir seinna olnbogaskotið en fórnarlambið var í báðum tilfellum landsliðsmiðherjinn Hildur Björg Kjartanssdóttir.

Báðar fóru þá af velli, dómararnir sendu Nikitu í sturtu en Hildur gat ekki spilað meira vegna þeirra meiðsla sem hún fékk.

Hildur Björg gat síðan ekki spilað með Val í gærkvöldi vegna meiðslanna en Nikita Telesford lék aftur á móti með Skallagrími í eins stigs sigri á Snæfelli.

Nikita Telesford missir aftur á móti af næstu tveimur leikjum Skallagríms sem eru á móti Keflavík og Breiðablik.

Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ hefur nú úrskurðað Nikitu Telesford í tveggja leikja bann vegna háttsemi sinnar í leik Skallagríms og Vals.

Hér fyrir neðan má sjá þessi olnbogaskot.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.