Körfubolti

Skoraði sautján stig í röð og snéri leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sóllilja Bjarnadóttir skoraði 17 af 28 stigum sínum í þriðja hlutanum þegar Blikar snéru við leiknum.
Sóllilja Bjarnadóttir skoraði 17 af 28 stigum sínum í þriðja hlutanum þegar Blikar snéru við leiknum. Vísir/Vilhelm

Útlitið var ekki alltof bjart hjá kvennaliði Breiðabliks í gær eftir erfiðan fyrri hálfleik á móti KR. Þá kom fyrrum leikmaður KR-liðsins Blikum til bjargar.

Blikinn Sóllilja Bjarnadóttir átti magnaðan þriðja leikhluta í Domino´s deildinni í körfubolta í gær þegar Breiðablik vann mikilvægan sigur á KR.

Sóllilja skoraði alls 28 stig í leiknum en hún hitti úr 7 af 11 þriggja skotum sínum. Það var þó ótrúleg frammistaða hennar í þriðja leikhlutanum sem stóð upp úr.

Sóllilja er uppalin hjá Breiðablik en spilaði í eitt tímabil með KR 2019-20 og í nokkur tímabil með Val. Nú er hún hins vegar í leiðtogahlutverki hjá Blikum og sýndi það heldur betur í gær.

KR-liðið var níu stigum yfir í hálfleik, 32-23, og var komið ellefu stigum yfir í upphafi seinni hálfleiksins, 36-25.

Skotkort Sóllilju Bjarnadóttur í þriðja leikhlutanum á móti KR.KKÍ

Sóllilja Bjarnadóttir skoraði átta stig í fyrri hálfleiknum en tók svo leikinn yfir þegar Blikar snéri leiknum við með því að vinna þriðja leikhlutann 27-10.

Sóllilja náði því að skora sautján stig í röð án þess að nokkur annar leikmaður á vellinum skoraði. Blikar voru 25-36 undir þegar hún byrjaði en 42-36 yfir þegar skotsýningunni lauk.

Á þessum fjögurra mínútna kafla þá skoraði Sóllilja fimm þriggja stiga körfur og eina tveggja stiga körfu. Enginn annar skoraði körfu í fimm mínútur í leiknum því fyrstu stig KR eftir sýningu Sóllilju komu af vítalínunni.

Þar var vel við hæfi að Sóllilja Bjarnadóttir fagnaði endurkomu áhorfenda með svona frammistöðu en pabbi og manna hennar, Bjarni Gaukur Þórmundsson og Sóley Ægisdóttir, voru bæði í stúkunni í Smáranum í gær.

Skotsýning Sóllilju Bjarnadóttur á móti KR 24. febrúar 2021:

  • KR 36-25 yfir í leiknum
  • Tveggja stiga karfa frá Sóllilju (27-36)
  • Þriggja stiga karfa frá Sóllilju (30-36)
  • Þriggja stiga karfa frá Sóllilju (33-36)
  • Þriggja stiga karfa frá Sóllilju (36-36)
  • Þriggja stiga karfa frá Sóllilju (39-36)
  • Þriggja stiga karfa frá Sóllilju (42-36)
  • Blikar komnir 42-36 yfir í leiknumFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.