Körfubolti

Utah Jazz lék meistarana grátt og er í toppmálum

Sindri Sverrisson skrifar
LeBron James raunamæddur eftir fjórða tapleikinn í röð.
LeBron James raunamæddur eftir fjórða tapleikinn í röð. Getty/Alex Goodlett

Leikmenn Utah Jazz halda áfram að fara á kostum sem besta lið NBA-deildarinnar það sem af er leiktíð. Þeir unnu meistara LA Lakers af miklu öryggi í nótt, 114-89.

Utah hefur nú unnið 22 af síðustu 24 leikjum sínum, og þar af hefur liðið unnið með að minnsta kosti tíu stiga mun í 20 leikjanna. Liðið er nú með enn meira forskot á Lakers í toppbaráttu vesturdeildarinnar, með 26 sigra en 6 töp. LA Clippers eru með 23 sigra og 10 töp en Lakers í 3. sæti með 22 sigra og 11 töp.

Rudy Gobert og Jordan Clarkson skoruðu 18 stig hvor fyrir Utah sem nýtti 22 af 48 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Þetta var ellefti leikur liðsins á tímabilinu þar sem það setur niður að minnsta kosti 20 þriggja stiga körfur. 

Utah var 63-47 yfir í hálfleik og gerði út um leikinn með fyrstu átta stigunum í seinni hálfleik, þar á meðal tveimur viðstöðulausum troðslum Goberts í röð.

LeBron James skoraði 19 stig fyrir Lakers og Montrzel Harrell 16 en liðið, sem var enn án Anthony Davis og Dennis Schröder, hefur nú tapað fjórum leikjum í röð.

Úrslit næturinnar:

  • Indiana 107-111 Golden State
  • Atlanta 127-112 Boston
  • Cleveland 112-96 Houston
  • Miami 116-108 Toronto
  • Chicago 133-126 Minnesota
  • New Orleans 128-118 Detroit
  • Oklahoma 102-99 San Antonio
  • Phoenix 121-124 Charlotte
  • Utah 114-89 LA Lakers
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×