Skoðun

Á­bendinga­lína Barna­heilla kemur að gagni

Þóra Jónsdóttir skrifar

Nýverið barst tilkynning frá ábendingalínu í Þýskalandi til Ábendingalínu Barnaheilla sem varðaði vefsíðu þar sem börn á aldrinum 9-13 ára voru birt á kynferðislegan hátt á uppstilltum myndum (e. child-modelling). Um var að ræða um 140 myndir, sem sýndu börnin klæðalítil þar sem þeim var stillt upp kynferðislega og á klámfenginn hátt.

Vefsíðan var hýst hjá fyrirtæki sem hefur tengsl við Ísland og því barst tilkynningin íslensku ábendingalínunni. Málið var áframsent til lögreglunnar, en lögreglan á Suðurnesjum annast samstarfið við Barnaheill og fulltrúi þeirra greinir tilkynningar sem til ábendingalínunnar berast.

Lögreglan sendi beiðni til fyrirtækisins sem bar ábyrgð á hýsingu vefsíðunnar, sem áður hefur verið komið á tengslum við, um að fjarlægja vefsíðuna af netinu. Umrætt fyrirtæki brást vel við beiðninni og fjarlægði síðuna umsvifalaust.

Þannig liðu innan við 30 klukkustundir frá því að tilkynningin barst frá Þýskalandi og þar til búið var að fjarlægja vefsíðuna af netinu.

Í framhaldinu sendi lögreglan málið til Interpol til frekari rannsóknar. Markmiðið með því er að finna þá sem ábyrgir eru fyrir vefsíðunni og mögulega bera kennsl á þau börn sem málið varðar og styðja þau úr hugsanlegum ofbeldisaðstæðum.

Í þessu máli sem öðrum, sannaðist gildi þess að tilkynna um ólöglegt og óviðeigandi efni sem varðar börn á neti til Ábendingalínu Barnaheilla.

Tilkynning kemur börnum til bjargar og hvert barn skiptir máli. Þú getur hjálpað okkur að eyða því versta.

Höfundur er verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×