Körfubolti

Stórskyttan Corey Taite fær sviðið í fyrsta sjónvarpsleik Hrunamanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Corey Taite hefur raðað niður körfunum með liði Hrunamanna í 1. deild karla í vetur.
Corey Taite hefur raðað niður körfunum með liði Hrunamanna í 1. deild karla í vetur. Fésbókin/Hrunamenn - Körfubolti

Domino´s deild karla í körfubolta er í smá pásu vegna landsleikja en í kvöld fær 1. deild karla að njóta sín í staðinn. Suðurlandsslagur Selfoss og Hrunamanna í 1. deild karla í körfubolta verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3 frá klukkan 19.55 í kvöld.

Þetta er örugglega í fyrsta sinn sem lið frá Hrunamönnum er í beinni útsendingu í sjónvarpi.

Bæði lið eru búin að bíða lengi eftir sigurleik, Hrunamenn hafa tapað fimm leikjum í röð og Selfyssingar hafa tapað fjórum leikjum í röð.

Síðasti sigur Selfossliðsins var 99-71 sigur á móti Sindra 22. janúar síðastliðinn en síðasti sigurleikur Hrunamanna var 88-86 sigur á Skallagrími sama kvöld.

Það verður fróðlegt að fylgjast með Corey Taite hjá Hrunamönnum en hann er langstigahæsti leikmaður 1. deildar karla með 35,4 stig að meðaltali í leik í fyrstu átta leikjunum. Taite er með 45,5 stig að meðaltali í sigurleikjum Hrunamanna í vetur og þeir þurfa að fá skotsýningu frá honum ætli þeir að vinna leikinn í kvöld.

Corey Taite er 24 ára gamall og útskrifaðist úr Goldey-Beacom háskólnum árið 2019. Hann er mikil skorari en er auk 35,4 stiga í leik að gefa 5,4 stoðsendingar í leik sem skila honum upp í fimmta sætið á stoðsendingalista deildarinnar.

Fleiri leikur úr 1. deildunum verða sýndir beint á næstunni.

Leikur Suðurnesjaliðanna Grindavíkur og Njarðvíkur í 1. deild kvenna verður sýndur beint á morgun og hefst útsendingin á Stöð 2 Sport 3 klukkan 15.55.

Þá verður einnig sýndur beint leikur Álftanes og Breiðabliks í 1. deild karla eftir viku og leikur Njarðvíkur og ÍR í 1. deild kvenna sem fer fram 2. mars næstkomandi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.