Kvennalið Keflavíkur hefur unnið fyrstu sjö deildarleiki tímabilsins og situr eitt í toppsætinu þrátt fyrir að leikið einum leik færra en næsta lið sem er Valur.
Frábær frammistaða hinnar bandarísku Daniela Wallen hefur vakið mikla athygli á þessari leiktíð og í leiknum í Stykkishólmi í gær náði hún að vera ein með hærra framlag en allir hinir leikmenn Keflavíkurliðsins til samans.
Daniela Wallen var með 52 af 100 framlagsstigum Keflvíkinga en hinir leikmennirnir voru með 45 framlagsstig til samans. Þrjú framlagsstig skrifuðust síðan á allt liðið vegna liðsfrákasta.
Þetta var annar fimmtíu framlagsstigaleikur Daniela Wallen í vetur en hún náði þó ekki sínu hæsta framlagi sem var í sigri á KR í fyrsta leik tímabilsins. Wallen fékk þá 56 framlagsstig en í þessum KR leik var hún með 37 sitg, 11 fráköst, 9 stoðsendingar og 7 stolna bolta.
Í leiknum í Hólminum í gær þá bauð Wallen upp á 37 stig, 17 fráköst, 7 stolna bolta, 3 stoðsendingar og 1 varið skot.
Wallen á nú fjóra hæstu leikina og jafnframt fimm af hæstu sex framlagsleikjum Domino´s deildarinnar á leiktíðinni.
Hæsta framlag leikmanns í einum leik í vetur:
- 56 framlagsstig - Daniela Wallen, Keflavík á móti KR
- 52 framlagsstig - Daniela Wallen, Keflavík á móti Snæfelli
- 45 framlagsstig - Daniela Wallen, Keflavík á móti Haukum
- 45 framlagsstig - Daniela Wallen, Keflavík á móti KR
- 39 framlagsstig - Annika Holopainen, KR á móti Keflavík
- 38 framlagsstig - Daniela Wallen, Keflavík á móti Val
- 38 framlagsstig - Ariel Hearn, Fjölni á móti Skallagrím
Framlagsstig Keflavíkurliðsins á móti Snæfelli
- Framlag Danielu Wallen: 52
- Framlag allra hinna leikmanna Keflavíkur: 45
- Liðsframlag: 3
Hæsta framlag hjá Keflavík í leiknum í Hólminum í gær:
- Daniela Wallen 52 framlagsstig
- Emelía Ósk Gunnarsdóttir 12 framlagsstig
- Anna Ingunn Svansdóttir 12 framlagsstig
- Katla Rún Garðarsdóttir 10 framlagsstig
- Erna Hákonardóttir 6 framlagsstig