Handbolti

Með sex sinnum fleiri mörk en næsti markvörður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Döhler er stórhættulegur í skotum sínum yfir allan völlinn sem og sendingum sínum fram í hraðaupphlaup.
Phil Döhler er stórhættulegur í skotum sínum yfir allan völlinn sem og sendingum sínum fram í hraðaupphlaup. Vísir/Bára

Sóknarleikur FH-inga byrjar hjá markverðinum Phil Döhler en hann hefur komið að langflestum mörkum af markvörðum Olís deildar karla í handbolta.

Phil Döhler skoraði tvö mörk yfir allan völlinn í 29-29 jafntefli FH og Hauka í Hafnarfjarðarslagnum í gærkvöldi.

Döhler skoraði fleiri mörk í leiknum í gær en nokkur annar markvörður hefur náð í einum leik í deildinni á þessu tímabili.

Þetta var enn fremur í annað skiptið í vetur sem Döhler skorar tvö mörk í leik en hann skoraði einnig tvö mörk á móti KA. Sá leikur endaði líka með jafntefli.

Phil Döhler er alls með sex mörk í Olís deildinni á leiktíðinni sem er sex sinnum meira en næstmarkahæsti markvörðurinn en átta markverðir deilda öðru sætinu með eitt mark.

Döhler er einnig með sjö stoðsendingar en þar er hann við hlið Gróttumarkverðinum Stefáns Huldar Stefánssonar sem er líka með sjö stoðsendingar. Phil Döhler hefur því alls komið að þrettán mörkum með beinu hætti í níu leikjum FH-liðsins í vetur.

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Hauka, hefur oftar en ekki verið áberandi þegar kemur að markaskori markvarða en hann hefur bara skorað eitt mark í vetur.

Þegar Björgvin Páll lék hér síðast tímabilið 2017-18 þá skoraði hann 11 mörk í 22 leikjum. Nú er hann bara með eitt mark í sjö leikjum.

Hér fyrir neðan má sjá tölfræði yfir markaskor markvarða en upplýsingar eru fengnar af tölfræðisíðunni skemmtilegu HB Statz.

Flest mörk markvarða í Olís deild karla:

  • Phil Döhler, FH 6
  • Arnór Freyr Stefánsson, Aftureldingu 1
  • Einar Baldvin Baldvinsson, Val 1
  • Björgvin Páll Gústavsson, Haukum 1
  • Jovan Kukobat, Þór Ak. 1
  • Ólafur Rafn Gíslason, ÍR 1
  • Andri Sigmarsson Scheving, Haukum 1
  • Arnar Þór Fylkisson, Þór Ak. 1
  • Björn Viðar Björnsson, ÍBV 1

Flestar stoðsendingar markvarða í Olís deild karla:

  • Phil Döhler, FH 7
  • Stefán Huldar Stefánsson , Gróttu 7
  • Einar Baldvin Baldvinsson, Val 3
  • Björgvin Páll Gústavsson, Haukum 3
  • Óðinn Sigurðsson, ÍR 3

Þáttur í flestum mörkum hjá markvörðum í Olís deild karla:

  • Phil Döhler, FH 13
  • Stefán Huldar Stefánsson , Gróttu 7
  • Einar Baldvin Baldvinsson, Val 4
  • Björgvin Páll Gústavsson, Haukum 4
  • Jovan Kukobat, Þór Ak. 3
  • Arnór Freyr Stefánsson, Aftureldingu 3
  • Óðinn Sigurðsson, ÍR 3



Fleiri fréttir

Sjá meira


×