Handbolti

Haukarnir hafa ekki unnið nágranna sína í FH í fimmtíu mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásbjörn Friðriksson hafa fagnað fjórum sinnum sigri á Hauka síðan Haukarnir unnu þá síðast.
Ásbjörn Friðriksson hafa fagnað fjórum sinnum sigri á Hauka síðan Haukarnir unnu þá síðast. Vísir/Bára

Það eru meira en fjögur ár liðin síðan að Hafnarfjörður var málaður rauður í Olís deild karla í handbolta. Haukarnir fá tækifæri til að breyta því í kvöld.

Það er orðið mjög langt síðan Haukar unnu erkifjendur sína í Olís deild karla í handbolta.

Haukarnir heimsækja FH-inga í Kaplakrika í kvöld í stórleik umferðarinnar en þetta er ekki bara nágrannaslagur heldur einnig toppslagur.

Leikur kvöldsins verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en útsendingin hefst klukkan 19.30 en leikurinn svo tíu mínútum síðar.

Leikir Hafnarfjarðarliðanna hafa vissulega verið mjög jafnir undanfarin ár en hlutirnir hafa ekki fallið með Haukaliðinu.

Nú er svo komið að það eru liðnir fimmtíu mánuðir síðan að Haukarnir náðu síðasta að leggja FH að velli í deildinni.

Sá sigur kom í Kaplakrika 15. desember 2016 en unnu Haukarnir 30-29 sigur. Guðmundur Árni Ólafsson tryggði Haukum sigurinn með marki 40 sekúndum fyrir leikslok en þetta var níundi deildarsigur liðsins í röð.

Síðan þá hafa liðin mæst sjö sinnum í deildarkeppninni, FH hefur unnið fjóra leiki og þrír leikir hafa endað með jafntefli. FH-ingar hafa tvisvar skorað jöfnunarmarkið í þessum þremur jafnteflisleikjum.

FH vann þriggja marka sigur í síðasta innbyrðis leik liðanna sem var 1. febrúar fyrir rúmu ári síðan. Leikurinn fór 31-28 fyrir FH en FH-ingar náðu mest sjö marka forystu í leiknum og sigur þeirra var því frekar sannfærandi.

Síðustu átta leikir FH og Hauka í Olís deildinni:

  • 2019-20

    FH vann 3 marka sigur í Kaplakrika (31-28)
  • Jafntefli á Ásvöllum (29-29)
  • 2018-19
  • Jafntefli í Kaplakrika (25-25)
  • Jafntefli á Ásvöllum (29-29)
  • 2017-18
  • FH vann 4 marka sigur á Ásvöllum (27-23)
  • FH vann 1 marks sigur í Kaplakrika (30-29)
  • 2016-17
  • FH vann 2 marka sigur á Ásvöllum (30-28)
  • Haukar unnu 1 marks sigur í Kaplakrika (30-29)
  • FH vann 4 marka sigur á Ásvöllum (28-24)

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×