Körfubolti

Jókerinn brosti breitt eftir sigur á meisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nikola Jokic leiddi Denver Nuggets til sigurs á meisturum Los Angeles Lakers.
Nikola Jokic leiddi Denver Nuggets til sigurs á meisturum Los Angeles Lakers. getty/Matthew Stockman

Denver Nuggets stöðvaði sjö leikja sigurgöngu meistara Los Angeles Lakers þegar liðin mættust í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Denver vann sautján stiga sigur, 122-105.

Nikola Jokic skoraði 23 stig fyrir Denver, tók sextán fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Þetta var sjötta þrefalda tvenna hans á tímabilinu. Jamal Murray skoraði 25 stig fyrir Denver sem hefur unnið þrjá leiki í röð.

LeBron James skoraði 22 stig, tók tíu fráköst og gaf níu stoðsendingar í liði Lakers sem missti Anthony Davis af velli vegna meiðsla.

Stórleikur Lukas Doncic dugði Dallas Mavericks ekki til sigurs gegn Portland Trail Blazers. Lokatölur 118-121, Portland í vil.

Damian Lillard skoraði 34 stig fyrir Portland og gaf ellefu stoðsendingar. Hann setti niður risa stóra þriggja stiga körfu undir lokin sem vóg þungt.

Doncic skoraði 44 stig fyrir Dallas og fylgdi þar með eftir 46 stiga leik sínum gegn New Orleans Pelicans á laugardaginn.

Vandræði Boston Celtics halda áfram en liðið tapaði fyrir einu slakasta liði deildarinnar, Washington Wizards, 104-91.

Bradley Beal, stigahæsti leikmaður deildarinnar, skoraði 35 stig fyrir Washington. Kemba Walker og Jaylen Brown skoruðu 25 stig hvor fyrir Boston. Jayson Tatum náði sér engan veginn á strik og skoraði bara sex stig.

Sigurganga Phoenix Suns heldur áfram en liðið vann sinn sjötta leik í röð þegar Orlando Magic kom í heimsókn. Lokatölur 109-90, Phoenix í vil.

Devin Booker skoraði 27 stig fyrir Phoenix sem er í 4. sæti Vesturdeildarinnar.

Úrslitin í nótt

  • Denver 122-105 LA Lakers
  • Dallas 118-121 Portland
  • Washington 104-91 Boston
  • Phoenix 109-90 Orlando
  • Toronto 112-116 Minnesota
  • Charlotte 110-122 San Antonio
  • Detroit 123-112 New Orleans
  • Oklahoma 114-109 Milwaukee
  • Sacramento 110-124 Memphis
  • LA Clippers 128-111 Cleveland
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×