Körfubolti

Bill Russell blés á 87 kerti á afmælisdaginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bill Russell, mesti sigurvegari körfuboltasögunnar.
Bill Russell, mesti sigurvegari körfuboltasögunnar. getty/Alex Wong

Körfuboltagoðsögnin Bill Russell fagnar 87 ára afmæli sínu í dag. Í tilefni þess fékk hann veglega köku frá eiginkonu sinni.

Hún var skreytt með smáranum, einkennismarki Boston Celtics, liðsins sem Russell lék með allan sinn feril í NBA-deildinni.

Þá voru 87 kerti á kökunni sem Russell blés á. Til öryggis stóð Shawn Kemp yngri, alnafni og sonur gömlu Seattle SuperSonics hetjunnar, við hlið Russells vopnaður slökkvitæki ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis.

Í færslu á Twitter grínaðist Russell með það að á 88 ára afmælinu þyrfti að beita hann endurlífgun eftir kertablásturinn.

Russell varð ellefu sinnum meistari á þeim þrettán tímabilum sem hann lék í NBA. Síðustu tvo titlanna (1968 og 1969) vann hann sem spilandi þjálfari Boston.

Auk titlanna ellefu sem Russell vann með Boston varð hann tvisvar háskólameistari með San Francisco Dons og Ólympíumeistari með bandaríska landsliðinu 1956.

Þá hefur Russell alla tíð verið ötull baráttumaður fyrir réttindum svartra. Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseti, sæmdi hann Friðarorðu forsetans 2011.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×