Umfjöllun og viðtöl: Fram - Selfoss 27-25 | Framarar slökktu í Selfyssingum

Andri Már Eggertsson skrifar
Afturelding - Selfoss Olís deild hsí íslandsmót karla, sumar 2020
Afturelding - Selfoss Olís deild hsí íslandsmót karla, sumar 2020 Foto: Hulda Margrét Óladóttir

Fram varð fyrsta liðið til að leggja Selfoss af velli síðan 24 september á síðasta ári. Fram vann leikinn á sterkri vörn sem var þeirra aðalsmerki gegnum leikinn og mátti sjá mikla gleði í leikmönnum Fram þegar flautað var til leiks loka.

Leikurinn hófst með miklu jafnræði þar sem bæði lið skiptust á að skora og voru aðal leikmenn Selfoss fljótir að koma sér á skorblaðið.

Fram átti góðan kafla um miðjan fyrri hálfleik eftir að hafa lent tveimur mörkum undir. Þá vaknaði Þorgrímur Smári og lét mikið til sín taka og voru heimamenn komnir í bílstjóra sætið með tveggja marka forskot.

Vörn beggja liða var í fyrirrúmi og voru bæði lið í erfiðleikum með að skora. Eftir að Selfoss jafnaði leikinn í 8 -8 var aldrei meira en eins marks munur í leiknum og þegar haldið var til búningsherbergja var leikurinn jafn 12 -12.

Sigurður Örn Þorsteinsson kom inn á í seinni hálfleik og mátti sjá að hann var mjög gíraður, hann virtist vera eini um það að skjóta fyrst um sinn en síðan fóru aðrir leikmenn að taka við sér. Fyrstu þrettán mínútur seinni hálfleiks gerði Sigurður 4 mörk í öllum regnboganslitum.

Líkt og í fyrri hálfleik var mikið jafnræði með liðunum sem skiptust á að taka frumkvæði leiksins og var þetta um tíma mikið borðtennis sem gerði loka kafla leiksins æsispennandi.

Selfoss fór illa að ráði sínu undir lok leiks. Fram missti Þorgrím Smára af velli með tveggja mínútna brottvísun þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leiknum en þeim tókst alls ekki að nýta sér liðsmuninn og voru þeir heldur klaufalegir þar sem Ragnar tapaði boltanum á stóru augnabliki ásamt því klikkaði Atli Ævar á dauðafæri. Leikurinn endaði með 27 - 25 sigri Fram.

Af hverju vann Fram?

Fram spilaði eitt af sínum betri leikjum á tímabilinu í kvöld þar sem Selfoss réði ekkert við þá bæði varnar og sóknarlega.

Þetta var mikill liðsheildar sigur þar sem það var að koma framlag frá öllum áttum allt frá Valtýri Má sem kom í markið og varði þrjá bolta á mikilvægu augnabliki yfir í Sigurð Þorleif sem skoraði 4 mörk á stuttum kafla og gerði vel í að þétta raðirnar varnarlega.

Hverjir stóðu upp úr?

Þorgrímur Smári Ólafsson var lang besti maður vallarins í kvöld. Þorgrímur skoraði sex mörk og var það krafturinn í skotunum hans sem Vilius Rasimas átti í miklum vandræðum með að lesa.

Þó Þorgrímur hafi fengið klaufalega tveggja mínútna brottvísun á mikilvægu augnabliki var hann algjör leiðtogi inná vellinum og fór mikinn í að skapa færi fyrir liðsfélaga sína sem nýttu sér það vel.

Hvað gekk illa?

Guðmundur Hólmar Helgason náði sér engan veginn á strik í kvöld, Guðmundur var með marga tapaða bolta og var ekki í miklum takti við leikinn og treysti Halldór Jóhann honum ekki til að spila síðustu tíu mínútur leiksins þegar allt var í járnum.

Selfoss voru alltof miklir klaufar undir lokinn og virtist ekki vera mikill áhugi að sækja í hið minnsta stig úr leiknum. Fram voru einum færri í eins marks leik þegar Fram voru einum færri í sókn en Stefán Darri prjónaði sig í gegnum vörn Selfoss og skoraði mikilvægt mark, Atli Ævar reynir síðan kjánalegan snúning sem Lárus Helgi les og var því ljóst að stigin tvö voru í eign Fram.

Vilius Rasimas var langt frá sínum besta dag í marki Selfoss, hann varði fá skot og voru nokkur mörk Fram sem láku inn sem virkaði heldur klaufalegt.

Hvað er gerist næst?

Það er þétt spilað í Olís deildinni þessa dagana og fer næsta umferð af stað strax á fimmtudaginn þar sem Fram fer í Hertz höllina og mætir Gróttu. Sólahring síðar fer fram stórleikur umferðarinnar á Ásvöllum þar sem Haukar og Selfoss mætast.

Halldór Jóhann Sigfússon: Hræðslan við að tapa var meiri en viljinn til að vinna leikinn

„Það voru margir hlutir sem virkuðu ekki sem hafa verið að virka fyrir okkur, við vorum bæði að spila flatir og með leikmann fyrir framan en hvorugt gekk upp en ég tek ekkert af Fram sem spilaði vel og setti okkur undir mikla pressu,” sagði svekktur Halldór.

„Ég veit það manna best sjálfur að Fram á það til að spila góða vörn, það var oft sem við gerðum ekki það sem við töluðum um en ég er svekktastur með að við fengum tækifæri til að taka algjört frumkvæði fórum við að klikka og þá féll allt með Fram.”

Leikurinn var jafn mest allan leikinn, loka kafli leiksins var æsispennandi en þar fóru Selfyssingar illa að ráði sínu og virkuðu þeir oft mjög klaufalegir.

„Við klikkuðum mikið Atli var búinn að vera góður fram að þessu klikki sem gerist bara, við gerðum einföld mistök sem var ekki ætluninn og er ég mjög súr að sjá hvað við töpuðum mörgum boltum sem við verðum að fækka,” sagði Halldór og bætti við að hræðslan við að tapa var meiri en viljinn fyrir því að vinna leikinn.

Guðmundur Hólmar Helgason var ekki í miklum takti við leikinn og vakti athygli að hann var hvergi sjáanlegur í liði Selfoss þegar mest á reyndi undir lok leiks.

„Guðmundur átti ekki sinn besta leik í kvöld, við erum með marga góða leikmenn í liðinu sem geta komið inn á þegar aðrir eru ekki að finna sig. Guðmundur var að gera einföld mistök sem hann veit upp á sig sökina og má sjá það til að mynda með sex töpuðum boltum. Menn eru búnir að spila fáa leiki á löngum tíma og þá gerist þetta stundum.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira