Skoðun

Stærri fyrirtæki þurfa að styðja betur við nýsköpun

Fida Abu Libdeh skrifar

Ég hef verið að vinna með mörgum metnaðarfullum konum undanfarna mánuði, m.a. þátttakendum í nýsköpunarhraðli Háskóla Íslands, AWE, sem haldinn er í samvinnu við bandaríska sendiráðið. Þær eiga margt sameiginlegt, meðal annars að vilja breyta okkar samfélagi til hins betra. Þær hafa hugvit og þrautseigju til að framkvæma og fylgja eftir sínum draumum.

Það sem helst vakti athygli mína er hversu erfitt og flókið það er að eiga samtal við og fá stuðning frá stærri fyrirtækjum. Þau virðast vera mjög fjarlæg frumkvöðlum og ekki gera sér grein fyrir því að nýsköpun innan fyrirtækja er mjög mikilvæg og hún þarf ekki endilega að koma innan frá.

Það virðist almennt vera erfitt fyrir þessar flottu konur og frumkvöðla, sem eru með frábærar hugmyndir, að fá stærri fyrirtæki til að funda, eiga samtal eða jafnvel að skrifa undir viljayfirlýsingu um að verkefnið sé áhugavert og að þau séu tilbúin að skoða nánara samstarf. Slíkar viljayfirlýsingar frá stærri fyrirtækjum eru mjög mikilvægar fyrir frumkvöðla og hjálpa þeim mikið með að fá styrki og fjármagna verkefnin sín.

Ég hef áhyggjur af þessari breytingu í okkar samfélagi. Ég var alltaf að monta mig af því að við á Íslandi hefðum forskot þar sem svona „hierarchy“ er nánast ekki til staðar hér. Þegar við stofnuðum GeoSilica þá gátum við pantað fundi með forstjórum ýmissa fyrirtækja og viðmótið var til fyrirmyndar. Við fundum ekkert áþreifanlega fyrir því að við værum minni aðilar heldur fengum við hvatningu og meðbyr til að halda áfram með okkar hugmynd.

Nýlega var ég viðstödd þegar nýsköpunarráðherrann okkar kynnti nýsköpunarstefnu Íslands. Ég tek undir hennar orð um að nýsköpun er ekki lúxus heldur nauðsyn. Ríkistjórnin hefur lagt mikla áherslu á að hvetja til nýsköpunar og þá sérstaklega fyrir stærri fyrirtæki, meðal annars með því að hækka endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar í 35% og skattaafslátt vegna fjárfestingar í nýsköpun í 75%. Ég velti því fyrir mér hvort þessi fyrirtæki hafi ekki áhuga á að hvetja til nýsköpunar og bæta samfélagið og hvort fyrirtæki, sem ekki hafa áhuga á eða hvetja til nýsköpunar, eigi þá slíkan stuðning skilið.

Ég hvet fyrirtæki og stofnanir til að bæta níunda heimsmarkmiðinu við sína stefnu og taka vel á móti frumkvöðlum og rétta þeim hjálparhönd til að stuðla að uppbyggingu og hlúa að nýsköpun. Þrátt fyrir efnahagsástandið í heiminum, sem rekja má til COVID-19, er svarið ekki að draga úr nýsköpun heldur hefur hún aldrei verið jafn nauðsynleg.

Höfundur er stofnandi og framkvæmdastjóri GeoSilica.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.