Handbolti

Dagur í sigti Löwen sem vill ekki lenda í því sama og með Kristján

Sindri Sverrisson skrifar
Dagur Sigurðsson var að klára HM með Japan þar sem liðið gerði flotta hluti, náði til að mynda jafntefli við Króatíu, og komst í milliriðlakeppni.
Dagur Sigurðsson var að klára HM með Japan þar sem liðið gerði flotta hluti, náði til að mynda jafntefli við Króatíu, og komst í milliriðlakeppni. Getty/Slavko Midzor

Dagur Sigurðsson er einn þriggja þjálfara sem forráðamenn Rhein-Neckar Löwen telja helst koma til greina til að taka við liðinu í sumar.

Þessu greinir staðarmiðillinn Mannheimer Morgen frá. Þar segir að Dagur, sem þjálfar japanska landsliðið, norski landsliðsþjálfarinn Christian Berge og Sebastian Hinze séu þeir sem Löwen sé með í sigtinu. Hinze hefur stýrt Bergischer frá árinu 2012.

MM nefnir að vegna slæmrar reynslu af því að hafa þjálfara sem ekki talaði þýsku, þegar félagið var með Kristján Andrésson í starfi, sé það skilyrði að nýr þjálfari tali reiprennandi þýsku. Það á við um Þjóðverjann Hinze sem og Dag og Berge.

Martin Schwalb er núverandi þjálfari Löwen en hættir í lok leiktíðar. Sú ákvörðun hans mun vera nokkuð óvænt. Samkvæmt MM er leit Löwen að nýjum þjálfara því ekki langt komin. Félagið vill helst ekki þurfa að borga upp samning til að losa þjálfara.

Forráðamenn Löwen munu ekki vera hrifnir af því að ráða þjálfara sem samhliða stýrir landsliði, en það kemur þó til greina í tilviki Dags og Berge. Samningur Dags um að þjálfa japanska landsliðið, sem verður á heimavelli á ÓL í Tókýó í sumar, gildir fram til ársins 2024.

Samningsstaða Hinze hjá Bergischer er ekki ljós. MM nefnir að hann sé 41 árs og gæti því verið sá ungi þjálfari sem fólkið í Löwen vilji fá, eins og þegar Nikolaj Jacobsen þjálfari heimsmeistara Dana var ráðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×