Körfubolti

Ævintýralegar lokasekúndur og botnliðið vann meistarakandídatana

Sindri Sverrisson skrifar
Russell Westbrook fagnar eftir að hafa skorað sigurkörfu Washington Wizards. Joe Harris virðist reyndar ekki ýkja reiður en hann gerði afar slæm mistök rétt áður.
Russell Westbrook fagnar eftir að hafa skorað sigurkörfu Washington Wizards. Joe Harris virðist reyndar ekki ýkja reiður en hann gerði afar slæm mistök rétt áður. Getty/Will Newton

Brooklyn Nets setja stefnuna á NBA-meistaratitilinn eftir komu James Harden á dögunum en urðu að sætta sig við tap í nótt gegn liðinu með versta árangurinn á leiktíðinni, Washington Wizards.

Russell Westbrook sýndi hvers hann er megnugur í nótt og þeir Bradley Beal tryggðu Wizards magnaðan sigur, 149-146, eftir að liðið hafði verið fimm stigum undir, 146-141, þegar innan við tíu sekúndur voru eftir.

Beal setti niður þrist þegar 8,1 sekúndur voru eftir og Garrison Matthews komst svo inn í innkastssendingu Joe Harris. Boltinn barst til Westbrook sem setti niður þrist og kom Wizards yfir. Hreint ótrúlegar lokasekúndur.

Westbrook og Beal með 78 stig

Westbrook skoraði 41 stig, tók 10 fráköst og gaf átta stoðsendingar, og Beal skoraði 37 stig. Í síðasta leikhlutanum skoraði Beal 22 stig og Westbrook 15. Kevin Durant skoraði 37 stig fyrir gestina frá Brooklyn en Harden missti af leiknum vegna meiðsla í læri.

Wizards eru eftir sem áður neðstir í austurdeildinni með aðeins fjóra sigra en 12 töp. Nets eru með 13 sigra en níu töp í 2. sæti.

Af öðrum úrslitum í nótt má nefna að Nikola Jokic skoraði heil 47 stig, jafnaði þar með stigamet sitt, í 128-117 sigri Denver Nuggets á Utah Jazz. Þar með lauk 11 leikja sigurgöngu Jazz í deildinni.

Úrslitin í nótt:

  • New York 115-129 LA Clippers
  • Denver 128-117 Utah
  • Indiana 110-119 Philadelphia
  • Toronto 115-102 Orlando
  • Washington 149-146 Brooklyn
  • Minnesota 109-104 Cleveland

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×