Handbolti

Gefur upp á­stæðuna fyrir heyrnar­tólunum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ef vel er gáð má sjá heyrnartólin sem Glenn Solberg notar. Hér sést hann í leiknum gegn Frakklandi.
Ef vel er gáð má sjá heyrnartólin sem Glenn Solberg notar. Hér sést hann í leiknum gegn Frakklandi. Slavko Midzor/Getty

Glenn Solberg hefur gert frábæra hluti með vængbrotið sænskt lið á HM í Egyptalandi. Þeir eru komnir í úrslitaleikinn og mæta Danmörku. Flautað verður til leiks klukkan 16.30 í Egyptalandi í dag.

Þeir sem hafa fylgst með leikjum sænska liðsins hafa séð að þjálfarinn Solberg er með heyrnartól í eyrunum, nánar tiltekið Airpods, í öðru eyranu. Eins og stendur í frétt danska miðilsins BT þá, nei hann er ekki að hlusta á Abba eða Björn Afzelius.

Aðstoðarþjálfarinn Tobias Karlsson er nefnilega í stúkunni og getur séð leikinn úr betri aðstöðu en af bekknum. Þetta hefur Solberg nýtt sér.

„Þetta er fyrst og fremst því Tobias er í hlutverki þar sem ég get nýtt hans styrkleika. Hann hefur verið góður varnarmaður í Flensborg og hjá landsliðinu í mörg ár,“ sagði Solberg í samtali við BT.

„Ef hann situr í stúkunni þá er hann með góða yfirsýn í rólegra umhverfi en að hann situr á bekknum. Ég held að það verði mjög gott til lengri tíma litið að fá eitthvað frá honum.“

„Nú hefur verið lélegt samband í höllunum sem hefur gert það að verkum að okkar samskipti hafi ekki verið upp á sitt besta en ég trúi á þetta að hjálpi okkur,“ bætti Solberg við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×