Handbolti

Stefán: Slakar æfingar hjá mér í vikunni

Ester Ósk Árnadóttir skrifar
Stefán Arnarson, þjálfari Fram.
Stefán Arnarson, þjálfari Fram. VÍSIR/HAG

„Við bjuggumst við erfiðum leik, þær eru með gott lið en ég er mjög svekktur hvernig við spiluðum leikinn en ég ætla ekki að taka neitt af KA/Þór,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram, eftir tapið gegn KA/Þór í Olís deild kvenna fyrr í dag.

„Við spilum fína vörn fyrstu 15 mínúturnar en við erum með 12 tapaða bolta í fyrri hálfleik og af fyrstu átta mörkum KA/Þór koma fjögur af þeim úr hraðaupphlaupi. Við erum bara að rétta þeim boltann og við náðum aldrei að minnka þann mun nægilega.“

„Útskýringarnar á þessum töpuðu boltum er að það eru búnar að vera slakar æfingar hjá mér í vikunni.“

Það vantaði lykilpósta í lið Fram en Stefán segir það enga afsökun.

„Það er enginn afsökun þótt það vanti Stellu, Hildi og Steinunni. Það eru öll lið að missa einhverja leikmenn og við eigum að geta gert miklu betur en þetta. Ég er búinn að vera þjálfari Fram í held ég sjö ár og ég held að þetta sé svona þriðja lélegasta frammistaðan hjá okkur á þeim árum.“

„Ég ætla að taka það fram að ég er ekki að taka neitt af KA/Þór, þær voru mjög flottar en okkar leikur, sóknarleikur, varnarleikur, hraðaupphlaup, hverjir hlupu til baka og tapaðir boltar, allt brást. Langt síðan við höfum átt svona marga þætti sem voru lélegir í leiknum.“

„Ég trúi ekki öðru en að við komum til baka á móti Stjörunni. Ef ekki þá bara þekki ég ekki mína leikmenn rétt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×