Skoðun

Hugmyndakreppa hægrisins og hnignunarskeið Valhallar

Gunnar Smári Egilsson skrifar

Hægrið er í kreppu og gaman fyrir áhugafólk um stjórnmál að fylgjast með birtingarmyndum hennar. Friðjón Friðjónsson, kosningastjóri Bjarna Benediktssonar og Guðna Th. Jóhannessonar, skrifar grein í Mogga dagsins um þessa kreppu, lýsir þar áhyggjum sínum yfir stöðu flokksins, fer með ástarjátningu til Valhallar og kveður upp heróp. Grein hans heitir: Hvenær hætti Sjálfstæðisflokkurinn að vera flokkur breytinga?

Ástinni beinir Friðjón til Sjálfstæðisflokks nýfrjálshyggjuáranna, frá yfirtöku Eimreiðarhópsins, fyrst með stefnubreytingu flokksins en síðar með nýrri forystu, formennsku Þorsteins og Davíðs. Fyrir Friðjóni er þetta tímabilið sem Sjálfstæðisflokkurinn var bestur.

Friðjón kallar tímann fyrir frjálshyggjuna var Sovét-Ísland (hugtak sem Friðjón notar á sama hátt og ég gerði fyrir margt löngu, með því að taka vonarkall Jóhannesar úr Kötlum og snúa því upp á Sjálfstæðisflokkinn og samfélagið sem ég fæddist inn í og ólst upp innan; að það hefði verið Sjálfstæðisflokkurinn sem viðhélt skömmtun á Íslandi, bönnum, fábreytni ... að xD hefði verið í sama hlutverki og Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna, valdaklíka sem lá eins og mara á samfélaginu og taldi sig geta sagt til um í smáu sem stóru hvað var leyfilegt og hvað ekki, sannfærð um að aukin völd fólks og hópa myndu leysa upp reglu samfélagsins). Friðjón er tekur því ekki undir með Styrmi Gunnarssyni, Ragnari Önundarsyni og fleirum; um að Sjálfstæðisflokkurinn fyrir nýfrjálshyggju hafi verið gamli góði Sjálfstæðisflokkurinn, að endurnýjun hans verði að felast í afturhvarfi til þess tíma, að nýfrjálshyggjan sé vandinn.

Hinn dyggi ráðgjafi og þjónn

Tímanum eftir Davíð Oddsson lýsir Friðjón sem tíma afturhalds og stöðnunar. Þetta er tími Geirs H. Haarde og Bjarna Benediktssonar yngri, mannsins sem Friðjón hefur verið dyggir ráðgjafi fyrir og þjónn. Til að endurnýja flokkinn kallar Friðjón eftir afturhvarfi til tíma Þorsteins og Davíðs. Friðjón telur að lausnin á þeim vanda sem nýfrjálshyggjan skilur eftir sé meiri nýfrjálshyggja.

En þrátt fyrir þessa söguskoðun um misjafnt gengi Sjálfstæðisflokksins þá er Friðjón sannfærður um að flokkurinn hafi alla tíð verið drifkraftur breytinga á Íslandi. Hann þakkar flokknum að Íslendingum hafi tekist að vinna sig úr örbirgð til allsnægta. Þetta er auðvitað stjörnugalin hugmynd.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð verið andstæðingur allra góðra breytinga í samfélaginu. Flokkurinn barðist gegn verkamannabústöðum, almannatryggingum, sumarleyfum, veikindarétti, atvinnuleysistryggingum og öllum réttindum launafólks og hverri krónu sem það krafðist í kjarabætur. Flokkurinn stóð gegn uppbyggingu leikskóla og dagheimila fyrir börn, dró lappirnar í uppbyggingu skólakerfisins og heilbrigðiskerfisins og gróf undan mennta- og listafólki sem flokkurinn leit á sem ógn, en ekki hluta af uppbyggingu góðs samfélags.

Þrælahaldarar gegn þrælahaldi

 Flokkurinn stóð gegn réttindum kvenna, fatlaðra, samkynhneigðra, innflytjenda, flóttafólks og allra jaðarsettra hópa. Flokkurinn stóð gegn útvíkkun landhelginnar, setti stein í götu fólks sem reyndi að byggja upp sín eigin fyrirtæki án þess að biðja flokkinn fyrst um leyfi, beindi fé banka, sjóða og lífeyrissjóða til innvígðra og innmúraða, stóð fyrir samþjöppun, fákeppni og einokun í öllum atvinnurekstri og braut þannig niður íslenskt atvinnulíf, færði forystu þess undir klíkur sem höfðu það eitt markmið að blóðmjólka almenning en engin um að byggja hér upp gott og heilbrigt samfélag.

Friðjón sér þetta ekki. Í fimmtíu ár hefur hann trúað að andstaða Sjálfstæðisflokksins gegn hverju framfaramáli hafi verið heilbrigð vörn gegn upplausn og öfgum. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn loks gaf eftir gegn kröfum fjöldans, þá telur Friðjón að það hafi verið Sjálfstæðisflokkurinn sem innleiddi breytingarnar. Þetta er svipað og halda því fram að þrælahaldarar hafi í raun verið í framvarðarsveitinni gegn þrælahaldinu, því það voru þeir sem síðastir gáfu eftir.

Þessi hugmynd, um kjölfestu Sjálfstæðisflokksins í íslenskum stjórnmálum, kallast í Valhöll að flokkurinn hafi verið vettvangur samkomulags í íslensku samfélagi. Að deilurnar hafi verið annars staðar, að eina leiðin til framfara á Íslandi hafi verið að fá Sjálfstæðisflokkinn til að fallast á þær; að eini sigurinn sem frelsisbaráttu almennings stendur til boða sé sú sem Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn að gefa.

Skipting valda

Að hluta til er þetta rétt greining. Völdunum á Íslandi er þannig skipt að 1% ríkasta fólkið átti um helminginn af atvinnulífinu á móti samvinnufyrirtækjum, fyrirtækjum ríkis- og sveitarfélaga og öðrum félagslegum rekstri. Ríkisvaldið, sem er framkvæmdaarmur hins lýðræðislega vettvangs, ætti að vera valdatæki 99 prósentanna í samfélagi almenns kosningaréttar. Þannig varð það þó ekki á Íslandi (og í engu landi í okkar heimshluta, þótt flest hafi náð betri árangri en við). Fulltrúar almennings á þingi trúðu að það væri ekki raunhæft, æskilegt eða tímabært að almenningur fengi að ráða sínu samfélagi.

Samvinnufólkið í Framsókn taldi snjallt fyrir hagsmuni kommissara í Sambandinu að deila yfirráðum yfir ríkisvaldinu með auðvaldinu, gefa því völd almennings í skiptum fyrir að Sambandsfyrirtækin fengju það sama. Kratar óttuðust lýðinn og trúðu ekki á völd hans, það var innbyggt í stefnu þeirra að þeim bæri að stjórna í góðri samvinnu við auðvaldið. 

Framan af voru róttækari sósíalistar eini flokkurinn (Kommúnistar, Sósíalistar, Allaballar) sem vildi að 99 prósentin réðu ríkisvaldinu, en smátt og smátt beygðu þeir sig undir að sósíalisminn væri ekki valkostur gegn kapítalismanum, að við gætum aldrei byggt upp samfélag út frá hagsmunum fjöldans og yrðum að beygja okkur undir ægivald hinna fáu. 

Uppgjöfin leiddi til þess að auðvaldið náði öllu atvinnulífi undir sig á nýfrjálshyggjuárunum, flutti mikið af ákvörðunum frá ríkisvaldinu (framkvæmdavald lýðræðis) út á markaðinn (framkvæmdavald auðsins) og beygði restina af ríkisvaldinu undir sig með innleiðingu stjórntækja kapítalískra fyrirtækja og útvistun valds frá hinu pólitíska (ohf-væðing, bankasýslu-leiktjöldin, markaðsvæðing grunnkerfa o.s.frv.)

Sjálfstæðiflokkurinn staðið í vegi fyrir réttlætinu

Stofnun Sósíalistaflokksins yngri er augljós afleiðing þessara þróunar, byggð á kröfu um að færa völdin til fólksins; að 99 prósentin eigi, geti og megi byggja upp samfélag eftir eigin kröfum, hagsmunum og vonum.

Það var innan þessa sjúka samkomulags sem ég lýsti, að samtök almennings mættu ekki ná fram neinum sigrum nema þeim sem auðvaldið féllist á, að Valhöll fékk neitunarvald í íslenskum stjórnmálum, sem fulltrúi auðvaldsins. Og með þessu samkomulagi var áframhaldandi áhrif borgarastéttarinnar tryggð eftir að kosningaréttur varð almennur. Eftir stutt vor, frá því að Alþýðuflokkurinn studdi Framsóknarflokkinn til valda 1927 og fram að því að Ólafi Thors tókst að kljúfa á milli stjórnmálaarma hinna sterku almannahreyfinga (verkalýðs- og samvinnuhreyfinga, sem báðar eiga rætur í sósíalismanum) um og upp úr stríði, náði borgarastéttin aftur lykilstöðu í íslenskum stjórnmálum. Og hefur haldið síðan. 

En á þessu stutta íslenska vori komu fram mest af þeim samfélagsbreytingum sem lögðu grunninn af því sem gott er í þessu samfélagi. Ekkert af því má rekja til Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur alla tíð sett sig á móti öllum kröfum almennings um réttlæti, jöfnuð og mannvirðingu.

Hin kostulega sjálfsblekking

En Sjálfstæðisflokksfólk lifir í þeirri trú að það hafi verið flokkur þess sem náði fram breytingunum. Í nýlegu ágætu hlaðvarpsspjalli Skoðanabræðra við Jón Pétur Þorsteinsson arkitekt lýsir Jón þessari blekkingu ágætlega með því að segja að Sjálfstæðisflokksfólk hafi slegist í lið með frelsisbaráttu hinsegin fólks þegar baráttuganga þeirra var orðin að þjóðhátíð. Sjálfstæðisflokkurinn er aldrei í forystu um neinar góðar breytingar en beygir sig undir þær þegar almenningur hefur knúið þær í gegn, þegar alþýðan er mætt fyrir utan höllina með heykvíslarnar og það rennur upp fyrir lénsherranum að hann verður að breyta til að halda völdum. Og það sjúklega er, að fólk eins og Friðjón telur sig hafa tryggt breytingarnar en að fólkið sem stóð í baráttunni hafi verið og sé enn háskalegt, merki um öfga og óróa í samfélaginu, eitthvað sem þarf að berja niður. Þetta er kostuleg sjálfsblekking, fólkið sem stendur gegn öllu góðu telur sig vera hið góða í samfélaginu.

Við lifum nú hnignunartíma Sjálfstæðisflokksins. Ein birtingarmynd þess er þessi tilraun Friðjóns að skrifa merkingu inn í þessa hnignun, þótt leið hans sé lituð sjálfsblekkingu og kolrangri greiningu. Líklega eru ekki margir eftir í heiminum sem halda fram því sama og hann gerir í þessari grein; að lausnin á ójöfnuði og óréttlæti nýfrjálshyggjunnar, eyðingu náttúrugæða og lífsskilyrða hins nýfrjálshyggna kapítalisma, sé meiri nýfrjálshyggja. Fyrir fimmtán, þrjátíu árum hefði Friðjón geta vitnað til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, OECD, The Economist, The Financial Times eða annarra dómkirkja hægrisins til stuðnings máls síns. En hann getur það ekki. 

Hnignunarskeið Sjálfstæðisflokksins

Allt heilbrigt fólk hefur áttað sig á að sú hugmyndastefna sem Friðjón kallar eftir er dauð. Og margt af öðru fólki líka, sem er kannski ekki að taka heilbrigða afstöðu til eyðileggingarinnar heldur fyrst og fremst kalkúleraða afsöðu til að framlengja völd sín. Það er aðeins hér í norðrinu, í spillingarlandinu Íslandi þar sem óligarkismi nýfrjálshyggjunnar hefur brotið undir sig alla umræðu og allar stofnanir samfélagsins, að svona röfl, eins og Friðjón leggur hér á borð, er ekki almennt talið komið áratug fram yfir síðasta söludag. Nýfrjálshyggjan er fyrir löngu komin á ruslahaug sögunnar. Gallinn fyrir íbúa Íslands er fréttirnar af því hafa ekki borist hingað.

Við lifum hnignunartíma auðvaldsins í heiminum, hnignunartíma Bandaríkjanna sem leitt hafa auðvaldið síðustu hundrað árin og síðustu áratugina inn blindgötu nýfrjálshyggjunnar, gagnbyltingar hinna ríku gegn réttarbótum almennings á eftirstríðsárunum. Og við lifum líka hnignunartíma Sjálfstæðisflokksins, valdablokkar borgarastéttarinnar á Íslandi, eins og þessi grein Friðjóns er ágætt merki um. 

Þetta er svona Make xD Great Again-grein, sem vísar til nýfrjálshyggjuára Þorsteins og Davíðs sem blómatíma. Alveg eins og Make xD Great Again-áköll Styrmis og Ragnars Önundarsonar snúa að tíma Ólafs Thors og Bjarna Ben eldri, forystu Sjálfstæðisflokksins sem þurftu að beygja sig undir skipulagðari og herskárri verkalýðshreyfingu en reyndin var með Þorstein/Davíð eða Geir/Bjarna Ben yngri (Bjarni er reyndar að fá að kynnast skipulagðri baráttu alþýðunnar og virðist ætla að svara því með ráðagerðum um að minnka völd verkalýðshreyfingarinnar).

Klofningur sem brýtur niður völd Valhallar

Önnur birtingarmynd hnignunar Sjálfstæðisflokksins er stofnun Viðreisnar, sem sækir í hið svokallaða frjálslynda fylgi xD (fólk eins og Friðjón), og Miðflokksins, sem sækir í afturhaldsfylgi xD, fólk sem óttast aukin réttindi kvenna, hinsegin fólks, innflytjenda og annarra hópa sem eru ekki "við" samkvæmt skilgreiningu Sigmundar Davíðs og félaga (það má hlusta á Klausturupptökunnar til að skilja þennan hugarheim, "hin" eru konur, fatlaðir, hinsegin, útlendingar og ótal fleiri, svo mikið "hin" að á samdrykkju Miðflokksins er því lýst sem ómennsku, einskonar skepnum utan mannlegs samfélags). Þetta eru birtingarmyndir auðvaldsflokkanna í dag, kvíslar sem eitt sinn runnu allar í gegnum Valhöll, en sem hafa nú brotið sér sína leið.

Þessi klofningur mun brjóta niður völd Valhallar, en ekki endilega auðvaldsins. Það eru fjársterkir aðilar sem klufu sig frá Valhöll og gerðu stofnun Viðreisnar og Miðflokksins mögulega. Án blessunar hluta auðvaldsins hefðu þessir flokkar ekki verið stofnaðir. Hvort þetta gerðist vegna þess að ólíkir armar auðvaldsins hafi ólíka hagsmuni eða hvort þarna er á ferð valdabarátta, óánægja með þá klíku sem ræður Valhöll þessi árin, er erfitt að segja til um. Það er hins vegar ljóst af ummælum forystufólks Sjálfstæðis-, Miðflokks og Viðreisnar þessar vikurnar að þessir flokkar eru að máta sig saman, kanna hvort möguleiki sé á að mynda hreina auðvaldsstjórn eftir kosningar.

Friðjón vill færa Sjálfstæðisflokkinn í átt að miðju

Kannski er grein Friðjóns aðeins innlegg í þann undirbúning. Að draga upp átakalínu innan Sjálfstæðisflokksins, þannig að öðrum megin sé svokallað frjálslyndi (sem samkvæmt upptalningu Friðjóns er aðeins frelsi hinna fáu ríku til að græða og kúga fjöldann) og hinum megin afturhald Miðflokksfólks, Trumpista og þeirra sem vilja innleiða stjórnmálahugtök alt-right-flokka víða um heim. 

Friðjón myndi fagna því að kjósendur upplifðu að val þeirra snerist um þetta; þau afturhaldssömu gætu kosið Miðflokkinn, þau frjálslyndu Viðreisn og þau sem vilja samstarf þessara hópa, þau sem geta ekki af trúarástæðum krossað við annað en D eða vilja ekki ganga eins langt og smærri flokkarnir, gætu kosið Sjálfstæðisflokkinn. Eftir kosningar myndu þessir flokkar svo sameinast um stjórnarsáttmála gegn almannahag og til að verja alla sigra hinna ríku frá nýfrjálshyggjuárunum.

Ég held að kosningastjórinn sé ekki að gera annað en þetta með greininni, að reyna að flytja Sjálfstæðisflokkinn af jaðri íslenskra stjórnmála (eini flokkurinn sem aðrir flokkar lýsa yfir að þeir muni aldrei starfa með, sama og gert er við Svíþjóðardemókrata, AfD í Þýskalandi og þjóðernisflokk Le Pen í Frakklandi) inn að miðjunni, að meginátök íslenskra stjórnmála liggi um sali Valhallar.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×