Handbolti

„Hef aldrei séð aðra eins frammistöðu hjá nýliða í svona mikilvægum leik“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mathias Gidsel er ein af stjörnum heimsmeistaramótsins í handbolta í Egyptalandi.
Mathias Gidsel er ein af stjörnum heimsmeistaramótsins í handbolta í Egyptalandi. epa/Mohamed Abd El Ghany

Danski handboltasérfræðingurinn Lars Rasmussen hélt ekki vatni yfir frammistöðu Mathiasar Gidsel í sigri Dana á Egyptum, 39-38, í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Egyptalandi í gær.

Gidsel hefur slegið í gegn á HM og átti enn einn stórleikinn í gær. Hann skoraði sex mörk í leiknum.

„Ég er alveg gríðarlega hrifinn af Mathias Gidsel. Stjarna er fædd. Landsliðsþjálfarar Dana þurfa ekki að hafa áhyggjur af því hver verður hægri skytta landsliðsins næsta áratuginn,“ sagði Rasmussen.

„Hann er stjarna framtíðarinnar. Það sem hann sýndi í dag [í gær] er fáránlegt. Hann er 21 ára strákur sem tekur svo mikla ábyrgð og spilar svo vel. Ég hef aldrei séð aðra eins frammistöðu hjá nýliða í svona mikilvægum leik. Hann er fullþroskaður þrátt fyrir að vera svona ungur.“

Rasmussen segir að Gidsel sé með gríðarlega gott hugarfar og það muni halda áfram að fleyta honum langt.

„Hann er svo sterkur andlega og með svo mikla trú á sjálfum sér til að verða ofurstjarna. Hann er klár fyrir allar áskoranir og hindranir sem á vegi hans verða,“ sagði Rasmussen.

„Það er fáránlegt hvað hann tekur mikla ábyrgð. Hann er kaldur, ískaldur og óttalaus. Honum er alveg sama hverjum hann mætir. Hann vill bara vinna.“

Gidsel leikur með GOG í heimalandinu en er eflaust kominn ofarlega á óskalista stærstu liða Evrópu eftir frammstöðuna á HM.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.