Handbolti

Gaupi: Guðmundur fór því miður fram úr sér

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson fór mikinn í viðtali við RÚV eftir leik Íslands og Frakklands á HM í Egyptalandi.
Guðmundur Guðmundsson fór mikinn í viðtali við RÚV eftir leik Íslands og Frakklands á HM í Egyptalandi. epa/Anne-Christine Poujoulat

Guðjón Guðmundsson segir að Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, hafi gert mistök er hann baunaði á sérfræðinga HM-stofunnar á RÚV eftir leik Íslands og Frakklands á HM í Egyptalandi.

Guðmundi var mikið niðri fyrir í viðtalinu eftir leikinn og talaði um að þeir Arnar Pétursson og Logi Geirsson hafi sýnt íslenska liðinu óvirðingu með ummælum sínum. Þau hafi farið illa í hann og íslenska liðið.

Viðtalið var til umræðu í Sportinu í dag en þar sagði Gaupi að Guðmundur hafi farið fullt geyst í hlutina.

„Þetta voru afar óheppileg ummæli hjá Guðmundi. Það hefði verið betra fyrir hann að telja upp að tíu og taka þennan slag daginn eftir, ekki strax eftir leikinn. Einfaldlega vegna þess að hann var reiður og þetta fór í taugarnar á honum,“ sagði Gaupi.

„En landsliðsþjálfari Íslands, alveg sama í hvaða íþróttagrein það er, getur ekki látið álitsgjafa eða fólk á samfélagsmiðlum hafa áhrif á það sem hann gerir. Og segja síðan að það hafi haft áhrif á sína leikmenn, ég get bara ekki tekið undir þetta með Guðmundi.“

Gaupi segir að Guðmundur hafi rétt á að gagnrýna álitsgjafa en segir jafnframt að þeirra hlutverk sé að hafa skoðanir.

„Gleymum því ekki að álitsgjafar eiga að rýna til gagns. Ef þeir hafa engar skoðanir og eru himinlifandi með allt sem gerist tökum við engum framförum og það verður engin þróun í okkar leik. Þetta er aðhald sem allir þurfa að fá og Guðmundur fór því miður fram úr sér. Hann má alveg hafa þessa skoðun en þú getur bara sagt þetta á svo marga vegu,“ sagði Gaupi.



Tengdar fréttir

Telja Ísland á réttri leið í átt að þeim bestu

Sérfræðingar sem Vísir leitaði til telja allir að íslenska karlalandsliðið í handbolta sé á réttri leið undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar, þrátt fyrir verstu niðurstöðu liðsins á HM frá upphafi.

Ýmir var bestur í íslenska liðinu á HM

Ýmir Örn Gíslason var besti leikmaður íslenska handboltalandsliðsins samkvæmt meðaleinkunn strákanna okkar í einkunnagjöf Vísis á heimsmeistaramótinu í handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×