Handbolti

Handbolta-Shaq og félagar dönsuðu af gleði eftir fyrsta sigurinn á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kongómenn, með Gauthier Mvumbi í broddi fylkingar, fagna sigrinum á Angólamönnum í gær.
Kongómenn, með Gauthier Mvumbi í broddi fylkingar, fagna sigrinum á Angólamönnum í gær. ihf

Kongó vann sinn fyrsta leik á heimsmeistaramóti karla í handbolta frá upphafi þegar liðið sigraði Angóla, 31-32, í Forsetabikarnum á HM í Egyptalandi í gær.

Kongó tapaði öllum leikjum sínum í riðlakeppninni en byrjaði Forsetabikarinn á því að vinna Angóla í hörkuleik.

Kongómenn voru eðlilega ánægðir með þennan sögulega sigur og dönsuðu af gleði eftir leik. Þar fór óvæntasta stjarna heimsmeistaramótsins, línutröllið Gauthier Mvumbi, fremstur í flokki eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.

Mvumbi hafði reyndar nokkuð hægt um sig í leiknum gegn Angóla og skoraði aðeins tvö mörk. Hann hefur alls skorað fimmtán mörk á HM úr sautján skotum.

Þessi 26 ára línumaður Dreux í frönsku D-deildinni hefur vakið mikla athygli á HM og fengið viðurnefnið Shaq handboltans. O'Neal sjálfur virðist hafa frétt af þessu og hann sendi Mvumbi skilaboð á Instagram.

Í viðtali við heimasíðu IHF, Alþjóða handknattleikssambandsins, sagðist Mvumbi fagna athyglinni sem hann hafi fengið á HM.

„Þegar það er talað um mig, er talað um Kongó. Við erum á HM í fyrsta sinn og það er talað um liðið okkar. Það er jákvætt fyrir ímynd okkar,“ sagði Mvumbi.

Mvumbi og félagar í Kongó mæta Túnis í næsta leik sínum í Forsetabikarnum. Ef Kongó vinnur er liðið öruggt með efsta sæti riðils I og á þar með möguleika á að vinna Forsetabikarinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.