Körfubolti

Stórleikur Danielu á Ásvöllum og Keflavíkurstelpur eru áfram taplausar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elísabeth Ýr Ægisdóttir hjá Haukum með boltann en Keflvíkingurinn Daniela Wallen Morillo er til varnar.
Elísabeth Ýr Ægisdóttir hjá Haukum með boltann en Keflvíkingurinn Daniela Wallen Morillo er til varnar. Vísir/Hulda Margrét

Guðjón Guðmundsson fór yfir umferðina í kvennakörfunni í gærkvöldi en þar fögnuðu Breiðablik, Valur, Keflavík og Fjölnir sigri í sínum leikjum.

Fjögur lið eru með átta stig á toppi Domino´s deildar kvenna í körfubolta eftir að sjötta umferðin fór fram í gær. Þessi þrjú lið hafa þó ekki spilað jafnmarga leiki.

Keflavík, Fjölnir og Valur eru liðin með átta stiga á toppnum, Keflavík í fjórum leikjum, Valur í fimm leikjum og nýliðar Fjölnis í sex leikjum.

Klippa: Gaupi fór yfir umferðina í Dominos-deild kvenna

Keflavíkurkonur hafa unnið alla fjóra leiki sína í vetur en þær sóttu sigur á Ásvöllum í gær. Keflavík vann leikinn 67-57 en þær gátu þakkað stórkostlegri frammistöðu Danielu Wallen Morillo fyrir það.

Daniela Wallen Morillo var með 31 stig, 23 fráköst og 45 framlagsstig í leiknum. Anna Ingunn Svansdóttir skoraði þrettán stig og var næststigahæst. Bríet Sif Hinriksdóttir var stigahæst hjá Haukum með 17 stig en liðið hefur nú tapað tveimur heimaleikjum í röð á mót Val og Keflavík.

Fjölniskonur höfðu tapað tveimur fyrstu leikjum sínum eftir að keppni hófst á ný en þær unnu alla þrjá leiki sína í haust. Grafarvogsliðið náði að enda taphrinuna með 75-68 sigri á botnliði KR. KR-konur hafa enn ekki unnið leik í deildinni.

Ariel Hearn skoraði 30 stig, tók 15 fráköst og gaf 6 stoðsendingar hjá Fjölni og Litháinn Lina Pikciuté var með 15 stig og 13 fráköst. Taryn McCutcheon skoraði 24 stig fyrir KR.

Helena Sverrisdóttir fór fyrir Valskonum í 80-68 sigri á Snæfelli en Valsliðið lék án hinnar bandarísku Kiana Johnson sem er meidd á öxl. Helena var með 17 stig, 13 fráköst og 8 stoðsendingar í leiknum en Hallveig Jónsdóttir var stigahæst með 21 stig.

Blikakonur fögnuðu sínum öðrum sigri í röð þegar þær unnu bikarmeistara Skallagríms 71-64. Jessica Kay Loera átti sinn besta leik með liðinu í vetur og skoraði 28 stig.

Hér fyrir ofan má sjá samantekt Gaupa frá leikjum gærkvöldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×