Um­fjöllun og við­töl: Grinda­­vík - Haukar 82-75 | Grinda­­vík enn með fullt hús stiga

Smári Jökull Jónsson skrifar
Grindavík er á toppi Dominos deild karla með fullt hús stiga.
Grindavík er á toppi Dominos deild karla með fullt hús stiga. Vísir/Elín Björg

Grindvíkingar unnu sinn fjórða leik á tímabilinu þegar þeir lögðu Hauka, 82-75 á heimavelli sínum í kvöld. Suðurnesjamenn eru því taplausir á tímabilinu.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur og Haukar voru mjög slakir í fyrsta leikhluta. Eftir hann leiddu Grindvíkingar 23-13 en sóknarleikur gestanna var alls ekki nógu góður. Hann lagaðist aðeins fyrir leikhlé en Grindvíkingar þó með þægilega forystu, 47-34.

Í þriðja leikhluta virtist kvikna smá neisti hjá Haukamönnum. Þeir náðu að minnka muninn niður í fimm stig og Breki Gylfason var grátlega nálægt því að minnka hann enn frekar en þriggja stiga tilraun hans skrúfaðist upp úr hringnum um leið og flautan gall í lok leikhlutans.

Fjórði leikhlutinn var spennandi. Munurinn hélst oftast í tveimur til fimm stigum en Haukar náðu að jafna metin í stöðunni 72-72. Kristófer Breki Gylfason skoraði þá afskaplega mikilvægan þrist fyrir heimamenn og kom þeim aftur í forystu.

Í stöðunni 77-75 tóku Haukar síðan leikhlé með 38 sekúndur á klukkunni. Þeir stilltu upp í kerfi, Austin Bracy fékk boltann úr innkastinu en steig útaf í kjölfarið. Afskaplega dýrt og Kristinn Pálsson kláraði leikinn með frábærri þriggja stiga körfu í næstu sókn.

Lokatölur 82-75 og Grindvíkingar fögnuðu fjórða sigrinum í vetur.

Af hverju vann Grindavík?

Heimamenn voru heilsteyptari í leik sínum í kvöld og þrátt fyrir smá dýfu á tímabili voru þeir með ágætis tök á leiknum. Leikmenn stigu upp þegar á reyndi og þristarnir tveir frá Kristófer Breka og Kristni Pálssyni undir lokin voru afskaplega mikilvægir.

Haukar spiluðu einfaldlega ekki nógu vel til að vinna. Þeir hittu illa og sóknarleikur þeirra virtist stefnulaus og tilviljandakenndur. Mistök Austin Bracy voru dýrkeypt sem og misnotuð víti undir lokin.

Þessir stóðu upp úr:

Joonas Jarveleinen var frábær í fyrri hálfleik og er að koma sterkur inn í Grindavíkur liðið. Dagur Kár var góður lengst af en var mistækur undir lok leiksins þar sem hann tapaði boltum og tók illa ígrunduð skot. Kristinn Pálsson var góður sömuleiðis og karfan hans í lokin frábær.

Þorleifur Ólafsson skilaði fínu framlagi, 8 stigum og 4 fráköstum á tíu mínútum auk þess að vera duglegur að segja sínum mönnum til og hvetja þá áfram.

Hjá Haukum var Emil Barja ágætur og þeir Breki Gylfason og Brian Fitzpatrick áttu ágæta spretti.

Hvað gekk illa?

Líkt og í síðasta leik var frammistaða Hauka sóknarlega alls ekki nógu góð. Þeir eru oft að taka slæm skot og bæði þjálfarinn og fyrirliðinn töluðu um það eftir leik að þeir væru ekki að klára kerfin sem væri búið að setja upp. Það er allavega næg vinna framundan hjá Israel Martin.

Grindavík sýndi karakter með því að sigla sigrinum heim í kvöld en það er kannski smá áhyggjuefni fyrir Daníel þjálfara að liðið skuli tapa niður ágætu forskoti í sínum leikjum.

Hvað gerist næst?

Grindavík fer næst til Keflavíkur og mætir þar heimamönnum. Daníel Guðni fær þá prófið gegn einu af bestu liðunum sem hann ræddi um í viðtali eftir leikinn í kvöld.

Haukar eiga heimaleik gegn Stjörnunni í næstu umferð sem verður svo sannarlega verðugt verkefni fyrir Hafnfirðinga.

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur.vísir/ernir

Daníel Guðni: Eigum eftir að máta okkur við liðin sem eru talin þau bestu á landinu

Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Grindavíkur var ánægður með byrjun liðsins í Domino´s deildinni en liðið er með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir.

„Ég er gríðarlega ánægður að fara svona vel af stað. Á mínum ferli í meistaraflokki karla hefur liðið ekki alltaf farið vel af stað. Þetta er mjög ánægjulegt en við eigum líka eftir að máta okkur við það sem eru talin bestu lið landsins. Við tökum öll stig og Haukar eru með hörkugott lið,“ sagði Daníel við Vísi eftir leik.

Í síðustu þremur sigurleikjum Grindavíkur hafa þeir verið að ná ágætis forskoti sem þeir hafa síðan misst niður í spennandi leiki.

„Við erum að spila á móti góðum liðum. Við vitum að í körfuboltaleikjum eru alltaf sveiflur. Við ræddum um það í hálfleik að þeir myndu taka eitthvað áhlaup, setja niður þrista og vera með æsing. Við vorum meðvitaðir um það og undirbúa okkur fyrir það hvernig leikurinn myndi spilast. Þetta fór eiginlega eins og við ræddum um en þeir voru kannski komnir full nálægt í restina,“ sagði Daníel en Haukar jöfnuðu metin í fjórða leikhluta.

Eric Wise spilaði lítið í kvöld vegna meiðsla og Daníel var óviss með stöðuna á honum.

„Hann fékk eitthvað í bakið á æfingu á þriðjudag og var fínn í upphitun. Síðan gerðist eitthvað hér í byrjun og hann gat ekki hreyft sig. Við þurfum bara að athuga það.“

Kristinn Pálsson hefur komið vel inn í lið Grindavíkur eftir félagaskiptin frá Njarðvík og skoraði mikilvæga körfu undir lokin sem kláraði leikinn í kvöld.

„Ég er ótrúlega ánægður með hans frammistöðu. Þetta var kannski góður tímapunktur fyrir hann til að skipta um lið og komast í annað umhverfi og hlutverk en hann var með hjá Njarðvík. Hans hlutverk stækkaði síðan helling þegar Sigtryggur Arnar hvarf á braut og hann er að grípa tækifærið.“

„Hann kláraði leikinn í kvöld með erfiðu þriggja stiga skoti. Það var eins gott að hann setti það niður,“ sagði Daníel með bros á vör.

Sævaldur: Margt sem við þurfum að laga

Sævaldur Bjarnason, aðstoðarþjálfari Hauka, kom í viðtal eftir leik og sagði ýmislegt sem hans menn þyrftu að laga í sínum leik.

„Við komum rosalega flatir inn í leikinn og vorum andlausir í fyrri hálfleik. Við gáfum okkur séns í þriðja og komum þessu í leik. Það voru 30 sekúndur eftir, við fáum innkast, setjum upp kerfi og stígum útaf,“ en á þessum tímapunkti var Grindavík tveimur stigum yfir og þessi mistök Hauka því dýr.

„Það er margt sem við þurfum að laga í okkar leik. Við þurfum að halda áfram að vinna í því sem við getum gert betur, til dæmis að spila kerfin út í gegn. Það er heldur ekkert hægt að neita því að einn á einn vörnin okkar er ekki nógu góð.“

Haukar hafa leikið síðustu leiki án Bandaríkjamannsins Earvin Morris og munar auðvitað um það.

„Það segir sig að ef þú tekur dýrasta manninn úr liðinu þá hefur það áhrif. Það er samt léleg afsökun að segja það, við erum í hörkuleik gegn Grindavík sem spilaði eiginlega ekki með sinn Kana í dag. Þetta eru 22 leikir og það eru 4 búnir, við verðum bara að halda áfram og vinna með það sem við erum með í höndunum.“

Haukar eru með einn sigur í fjórum leikjum og þurfa að sækja stig sem fyrst.

„Það er mjög þétt spilað, menn eru þreyttir. Þetta tekur sinn toll og við þurfum að finna leið til að dreifa álaginu. Við þurfum meira hjarta og leggja meira í þetta. Það á ekki að vera þannig að ef þú spilar við Hauka þá séu það tvö auðveld stig. Menn verða leggja vinnuna á gólfið, það er mikil vinna lögð í þetta. Það er álag og ekkert hægt að afsaka sig. Leikur á sunnudag og bara áfram gakk.“

Kristinn: Sýnum góðan karakter

Kristinn Pálsson kom til Grindavíkur frá Njarðvík fyrir tímabilið og hefur byrjað vel í gula búningnum á tímabilinu. Hann spilaði vel í kvöld og setti mikilvæga þriggja stiga körfu undir leiksins.

„Við erum mjög sáttir og vonandi getum við haldið þessu áfram. Það er númer 1, 2 og 3 að sækja tvö stig í hverjum einasta leik sem við spilum. Við ætlum okkur að halda áfram á þessari sigurgöngu,“ sagði Kristinn eftir leik en Grindavík er með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir í Domino´s deildinni.

Haukar náðu að minnka muninn í tvö stig í fjórða leikhluta og fengu tækifæri til að jafna leikinn eða komast yfir. Grindvíkingar spiluðu hins vegar fína vörn og Kristinn svo gott sem kláraði leikinn með frábærri þriggja stiga körfu þegar 18 sekúndur voru eftir.

„Við getum sjálfir okkur um kennt, gerðum mistök í restina þegar við vorum að tapa boltum og hleyptum þeim inn í leikinn eftir að hafa verið komnir með gott forskot. Frábær karfa og ég er ánægður með að boltinn fór ofan í, hún kláraði eiginlega leikinn sem er geggjað.“

Grindvíkingar hafa náð ágætri forystu í sínum leikjum undanfarið en misst hana niður í spennandi leik undir lokin.

„Það sýnir samt karakter að við erum að fara 10-15 yfir, missa það niður en við erum samt aldrei farnir. Við erum að klára leikina sem er mjög mikilvægt ef við ætlum að gera eitthvað í þessu móti.“

Faðir Kristins, Páll Kristinsson, lék í fjölmörg ár með Grindavík og hann því að feta í hans fótspor. Kristinn sagðist kunna vel við sig í gula búningnum.

„Þetta er geggjað, ég er mjög sáttur. Ég fær nóg af tækifærum til að sýna hvað ég get og er mjög ánægður með það,“ sagði Kristinn að lokum.

Emil Barja, leikmaður Hauka.vísir/ernir

Emil: Verðum að treysta á kerfin

Emil Barja fyrirliði Hauka var ósáttur eftir tap hans manna gegn Grindavík í HS Orku höllinni í kvöld. Haukar eru með þrjú töp á bakinu eftir fyrstu fjórar umferðirnar í Domino´s deildinni.

„Mér fannst við vera þungir. Við vorum ekki að hlaupa kerfin af krafti, við vorum ekki að koma úr blokkeringum af krafti og þær voru ekki nógu góðar hjá okkur. Sóknarleikurinn yfirhöfuð er ekki nógu góður, of einhæfur og við vorum ekki að finna það sem við vorum að leita að í kerfunum,“ sagði Emil í samtali við Vísi eftir leik.

Sóknarleikur Hauka olli þeim líka vandræðum í síðasta leik gegn Keflavík en Emil sagði stuttur tími á milli leikja ekki vera málið.

„Við erum búnir að hlaupa kerfin allan desember, við kunnum þau og vitum hvert við eigum að fara. Það er eins og við treystum því ekki að við getum fengið opin skot ef við hlaupum þau til enda.“

Emil var heldur ekki ánægður með varnarleik síns liðs í dag.

„Í raun ekki. Mér fannst við geta gert miklu betur, þeir voru að fá opin skot og róteringarnar voru oft vitlausar hjá okkur. Við vorum að hjálpa vitlausum mönnum, þeir voru að taka einföld kerfi og það kom enginn til að hjálpa. Við getum gert miklu betur.“

Haukar eru með einn sigur eftir fyrstu fjórar umferðirnar í deildinni.

„Alls ekki nein óskastaða. Við verðum bara að halda áfram. Við þurfum að treysta á kerfin, við erum með góð kerfi og við þurfum að hlaupa með einhverju markmiði. Ekki bara ein sending og skot eða ein blokkering og skot. Þetta eru kerfi sem geta gefið okkur fullt ef við bara hlaupum þau almennilega og treystum á þau.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira