Körfubolti

Enn eitt tapið hjá KR en Fjölnir og Valur á toppnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Helena Sverrisdóttir var atkvæðamikil í kvöld.
Helena Sverrisdóttir var atkvæðamikil í kvöld. vísir/bára

KR tapaði fimmta leiknum af fimm mögulegum í Domino’s deild kvenna er liðið tapaði fyrir Fjölni á útivelli í kvöld, 75-68. Á sama tíma vann Valur sigur á Snæfell á heimavelli og er á toppi deildarinnar, ásamt Fjölni.

Fjölnir byrjaði betur og var sex stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann og tólf stigum yfir í hálfleik. Aðeins náðu Vesturbæjarstúlkur að minnka muninn í þriðja og fjórða leikhlutanum en lokatölur 75-68, sigur Fjölnis.

Ariel Hearn var mögnuð í liði Fjölnis. Hún skoraði þrjátíu stig, tók fimmtán fráköst og gaf sex stoðsendingar. Lina Pikciuté skoraði fimmtán stig og tók þrettán fráköst fyrir Fjölni sem er með átta stig — á toppnum með Val.

Taryn Ashley Mc Cutcheon gerði 24 stig fyrir KR. Að auki tók hún fimm fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Annika Holopainen bætti við 21 stigi og níu fráköstum en KR er á botni deildarinnar.

Valur vann 80-68 sigur á Snæfell á heimavelli. Snæfell var þó aldrei langt undan eins og lokatölurnar gefa til að kynna. Staðan í hálfleik var 37-32 en Valsliðið vann þó alla fjóra leikhluta kvöldsins.

Helena Sverrisdóttir var einu sinni sem oftar ein af þeim atkvæðameiri í liði Vals. Hún gerði sautján stig, tók þrettán fráköst og gaf átta stoðsendingar. Hallveig Jónsdóttir var hins vegar stigahæst með 21 stig.

Haiden Denise Palmer gerði sautján stig fyrir gestina. Einnig tók hún sex fráköst. Emese Vida gerði tíu stig og tók tólf fráköst en Kamilé Berenyté skoraði einnig tíu stig.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.