Handbolti

Guðmundur: Fegnastur að enginn skyldi slasa sig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson var sáttur með sigurinn á Marokkó og að allir leikmenn Íslands kæmust heilir frá leiknum.
Guðmundur Guðmundsson var sáttur með sigurinn á Marokkó og að allir leikmenn Íslands kæmust heilir frá leiknum. epa/Khaled Elfiqi

Guðmundur Guðmundsson var ánægður með sigurinn á Marokkó, 31-23, í lokaleik Íslands í F-riðli heimsmeistaramótsins í Egyptalandi. Hann var ósáttur við grófan leik Marokkómanna.

„Þetta var nákvæmlega eins og ég bjóst við. Ég vissi að þetta yrði erfitt og það myndi taka okkur tíma að komast inn í leikinn og finna jafnvægi í sóknarleiknum. Það tók okkur smá tíma að hrista þetta af okkur en eftir það gekk þetta frábærlega í fyrri hálfleik. Við opnuðum þá ítrekað mjög vel,“ sagði Guðmundur við RÚV eftir leikinn.

„Hvað vörnina varðar var þetta svipað og ég bjóst við. Þeir spila óvenjuleg leikkerfi og það er ofboðslegur hraði á þeim. Þetta er ekkert einfalt.“

Marokkómenn gengu hart fram og fengu þrjú rauð spjöld fyrir ruddabrot í leiknum í kvöld.

„Ég er bara fegnastur að enginn skyldi slasa sig, af okkar leikmönnum. Þetta var hroðalega grófur leikur af þeirra hálfu. Ég bara feginn að enginn hafi meiðst,“ sagði Guðmundur.

Stöðug vörn

Þjálfarinn vildi sjá íslenska liðið skora meira úr hraðaupphlaupum í leiknum í kvöld.

„Við erum með tiltölulega stöðuga vörn og verðum að gera það áfram. Sóknin hefur yfirleitt gengið mjög vel en auðvitað verða andstæðingarnir í milliriðli öðruvísi. En við þurfum að skora meira úr hröðum upphlaupum. Mér finnst vanta nokkur mörk þar í dag. Við þurfum að fara yfir það,“ sagði Guðmundur.

Mjög gaman að sjá Donna hamra boltann upp í skeytin

Hann kvaðst ánægður með framlag íslensku skyttanna í leiknum í kvöld.

„Það er mjög ánægjulegt og þetta er að dreifast vel. Við erum að fá mörk fyrir utan. Donni [Kristján Örn Kristjánsson] setti tvö upp í vinkilinn. Það var sérstaklega ánægjulegt. Við stilltum upp fyrir hann í leikkerfinu. Það var mjög gaman að sjá hann hamra boltann upp í skeytin,“ sagði Guðmundur að lokum.


Tengdar fréttir

Síðan fæ ég högg beint í smettið

Gísli Þorgeir Kristjánsson átti mjög fínan leik er íslenska liðið vann Marokkó með átta marka mun, 31-23. Hann fékk nokkuð þungt högg í andlitið sem honum fannst ekkert spes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×