Umfjöllun: Ísland - Marokkó 31-23 | Öruggt gegn grófum mótherjum

Sindri Sverrisson skrifar
Viggó Kristjánsson átti frábæran fyrir hálfleik í kvöld.
Viggó Kristjánsson átti frábæran fyrir hálfleik í kvöld. EPA-EFE/Khaled Elfiqi

Íslendingar áttu ekki í vandræðum með að vinna Marokkó, 31-23, í lokaleik sínum í F-riðli heimsmeistaramótsins í handbolta í Egyptalandi. Þar með fer Ísland með tvö stig áfram í milliriðla mótsins.

Marokkóbúar voru afar grófir í sínum varnarleik og voru þrír þeirra komnir upp í stúku með rautt spjald áður en leik lauk. Það truflaði þó ekki Íslendinga sem hægt og bítandi náðu upp forskoti og unnu að lokum öruggan sigur.

Það var mikið í húfi fyrir íslenska liðið. Eftir tap Alsírs gegn Portúgal hefði reyndar þurft hamfarir af áður óþekktri stærðargráðu til að Ísland kæmist ekki áfram í milliriðla, en liðið þurfti sigur til að taka með sér tvö stig þangað í stað þess að vera án stiga.

Í milliriðlakeppninni mætir Ísland liði Sviss (0 stig) á miðvikudaginn, Frakklandi (4 stig) á föstudaginn og loks Noregi (2 stig) næsta sunnudag. Portúgal fer þangað með fjögur stig en Alsír ekkert. Tvö efstu liðin í milliriðlinum komast í 8 liða úrslit.

Viggó frábær í fyrri og enn stóð vörnin vaktina vel

Marokkóbúar mættu tilbúnir til að berjast fyrir lífi sínu og voru kraftmiklir á báðum endum vallarins í byrjun. Þeir komust í 3-1. Fljótlega höfðu strákarnir okkar þó jafnað metin og þeir komust yfir í fyrsta sinn um miðjan fyrri hálfleik, 6-5, eftir flott gegnumbrot Viggós Kristjánssonar sem var frábær í fyrri hálfleik.

Ólafur Guðmundsson var frábær í fyrri hálfleik og hér sækir hann á vörn Marokkó.EPA-EFE/Khaled Elfiqi

Viggó fékk lítið að láta til sín taka í fyrsta leik mótsins, gegn Portúgal, og hefur verið á eftir Ómari Inga Magnússyni og Alexander Petersson í goggunarröðinni sem hægri skytta. Ómar Ingi fékk hvíld frá leiknum í kvöld en Viggó fékk gott tækifæri til að láta ljós sitt skína og nýtti það með fimm mörkum úr fimm skotum í fyrri hálfleik, en hafði sig lítið frammi í þeim seinni.

Íslenska vörnin var firnasterk í fyrri hálfleik eins og á öllu mótinu, og hjálpaði Björgvini Páli Gústavssyni að líta vel út í markinu en hann stóð afar vel fyrir sínu í kvöld, sérstaklega í fyrri hálfleik. Marokkó skoraði ekki mark í átta mínútur og Ísland komst í 8-5. Munurinn varð svo fljótt fimm mörk og þannig var hann í hálfleik, 15-10, eftir þrjú mörk í röð frá Ólafi Guðmundssyni sem ásamt Viggó var markahæstur með sex mörk og átti mjög góðan leik.

Eina tækifærið til að spara krafta

Marokkóbúar fengu nánast að skora að vild í upphafi seinni hálfleiks, úr hröðum sóknum og hraðaupphlaupum, og skoruðu fimm mörk á fimm mínútum eftir að hafa skorað tíu allan fyrri hálfleikinn. Hafi Ísland einhvern hluta þessa móts átt að geta sparað kraftana að einhverju leyti, og hvílt leikmenn sem á því þurftu að halda, þá var það í kvöld. 

Kannski var það hluti ástæðunnar fyrir því að liðið náði aldrei að stinga Marokkó af eins og gegn Alsír. Það gæti reynst þess virði þegar í millriðla kemur með álaginu sem því fylgir.

Viggó Kristjánsson var valinn maður leiksins og er hér fagnað af félögum sínum.EPA-EFE/Khaled Elfiqi

Munurinn fór niður í þrjú mörk, 18-15, en þá tók íslenska liðið við sér að nýju og sýndi að hluta þann mikla mun sem er á liðunum tveimur. Elvar Örn Jónsson fékk góða hvíld frá sóknarleiknum en skoraði með þrumuskoti og jók muninn í sjö mörk, 22-15, þegar tuttugu mínútur voru eftir.

Þrjú afar gróf brot

Marokkóbúar gáfust ekki upp og reyndu áfram að koma sér inn í leikinn, en náðu aldrei að hleypa spennu í hann. Ljóst var að markamunur breytti engu fyrir Ísland, svo lengi sem að liðið næði að vinna, og strákarnir þurftu því ekki að stressa sig á lokamínútunum.

Það var þó hiti í leiknum og allir í íslenska hópnum létu í sér heyra þegar Hicham Hakimi varð þriðji leikmaður Marokkó til að fá rautt spjald, fyrir að hrinda Viggó þegar hann var í loftinu að skjóta. Viggó skall illa á gólfið. Áður höfðu Elvar og Gísli Þorgeir Kristjánsson fengið slæm högg í andlitið en allir gátu þó haldið áfram að spila.

Kristján varð þriðji nýliðinn

Kristján Örn Kristjánsson kom inn í hópinn í stað Ómars Inga. Hann varð þriðji Íslendingurinn til að þreyta frumraun sína á stórmóti, á eftir Elliða Snæ Viðarssyni og Magnúsi Óla Magnússyni, þegar hann kom inn á fimm mínútum fyrir leikslok. Kristján, sem er uppalinn hjá Fjölni en leikur með einu af bestu liðum Frakklands í dag, nýtti tímann sinn vel og skoraði með tveimur glæsilegum skotum úr hægri skyttustöðunni.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.