Handbolti

Lazarov leiddi Norður-Makedóníu til sigurs og sætis í milliriðli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kiril Lazarov fagnar einu átta marka sinna gegn Síle.
Kiril Lazarov fagnar einu átta marka sinna gegn Síle. epa/Mohamed Abd El Ghany

Norður-Makedónía tryggði sér sæti í milliriðli á heimsmeistaramótinu í handbolta í Egyptalandi með sigri á Síle, 32-29, í dag.

Kiril Lazarov og félagar í norður-makedónska landsliðinu töpuðu fyrstu tveimur leikjum sínum á HM með samtals 31 marks mun og þurftu að vinna Síle í dag til að ná 3. sæti G-riðils og komast þannig í milliriðil.

Síle var sterkari í fyrri hálfleik og leiddi að honum loknum, 16-17. Í seinni hálfleiknum náði Norður-Makedónía yfirhöndinni og landaði þriggja marka sigri, 32-29.

Lazarov fór mikinn í leiknum og skoraði átta mörk. Þá varði Nikola Mitrevski vel í seinni hálfleik. Rodrigo Salinas skoraði níu mörk fyrir Síle sem fer í Forsetabikarinn.

Rússland vann fjögurra marka sigur á Suður-Kóreu, 26-30, í H-riðli. Kornungt lið Suður-Kóreu gerði Rússlandi erfitt fyrir framan af leik og staðan í hálfleik var jöfn, 15-15.

Í seinni hálfleik sigu Rússar fram úr, leiddu alllan tímann og náðu mest fimm marka forskoti. Á endanum munaði fjórum mörkum á liðunum, 26-30.

Rússland er sem stendur í 1. sæti H-riðils en Hvíta-Rússland getur jafnað granna sína að stigum með sigri á Slóveníu á eftir. Suður-Kórea endaði í neðsta sæti riðilsins og fer í Forsetabikarinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.