Handbolti

Tveir í við­bót smitaðir hjá Græn­höfða­eyjum og leikurinn gegn Al­freð í hættu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Grænhöfðaeyjar tryggðu sér sæti á HM í fyrsta sinn með því að lenda í 5. sæti á Afríkumótinu.
Grænhöfðaeyjar tryggðu sér sæti á HM í fyrsta sinn með því að lenda í 5. sæti á Afríkumótinu. ihf.info

Það er ólíklegt að leikur Grænhöfðaeyja og Þýskalands fari fram á morgun á HM í handbolta sem fer fram í Egyptalandi eftir að tveir leikmenn í viðbót í herbúðum Grænhöfðaeyja greindust smitaðir í dag.

IHF staðfesti þetta í dag á heimasíðu sinni en í undirbúningi mótsins voru það sex leikmenn liðsins sem greindust með veiruna ásamt þjálfaranum, einum aðstoðarþjálfaranna, sjúkraþjálfaranum og einum starfsmanni. Þeir fóru því ekki til Egyptalands.

Grænhöfðaeyjar töpuðu einungis með sjö mörkum gegn Ungverjum í gær en þeir voru með ellefu leikmenn á skýrslu. Leyfilegt er að vera með sextán. Nú er hins vegar staðfest að tveir í viðbót séu komnir með veiruna. Þetta kom út úr PCR prófi sem þeir gengust undir í gær.

Báðir leikmenn greindust með veiruna í byrjun janúar, að sögn Grænhöfðaeyja, en þeir greindust þó aftur jákvæðir í gær og geta því ekki spilað þangað til þeir skila tveimur neikvæðum testum.

Samkvæmt reglum IHF verður hvert lið að vera með tíu leikmenn klára til þess að spila leikinn en eins og sakir standa eru Grænhöfðaeyjar einungis með níu leikmenn klára gegn Alfreð Gíslasyni og lærisveinum í Þýskalandi á morgun.

Verði leiknum aflýst verður Þýskalandi úthlutaður 10-0 sigur en takist einhverju liði ekki að klára alla þrjá leikina í mótinu verður liðið rekið úr mótinu. Það er spurning hvort að þeir nái að koma einhverjum leikmanni til Egyptalands í tæka tíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×