Körfubolti

Unnu sigur í fyrsta leiknum án Hardens

Sindri Sverrisson skrifar
Christian Wood var stigahæstur hjá Houston Rockets í sigrinum í nótt.
Christian Wood var stigahæstur hjá Houston Rockets í sigrinum í nótt. Getty/Ronald Cortes

James Harden lék ekki með Houston Rockets í nótt vegna yfirvofandi vistaskipta hans til Brooklyn Nets en án hans vann Houston sinn fjórða leik á tímabilinu.

Harden hefur verið aðalmaðurinn í Houston um árabil og stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar síðustu þrjú tímabil. Nú er komið að öðrum að láta ljós sitt skína hjá liðinu og Houston vann 109-105 sigur gegn San Antonio Spurs.

Christian Wood var atkvæðamestur hjá Houston með 27 stig og 15 fráköst. Sterling Brown, sem kom inn í byrjunarliðið í stað Hardens, skoraði 23 stig, tók sjö fráköst og gaf þrjár stoðsendingar, og Jae‘Sean Tate var einnig öflugur með 13 stig, 10 stoðsendingar og fimm fráköst.

Harden hálfpartinn kvaddi Houston í viðtali eftir tvo tapleiki í röð gegn LA Lakers á þriðjudaginn, með þeim orðum að liðið væri einfaldlega ekki nógu gott og ekki væri hægt að laga það. Samherjar hans nýttu fyrsta tækifæri til að sýna að eitthvað væri þó í liðið spunnið, en Houston er samt næstneðst í vesturdeildinni með 4 sigra og 6 töp.

Jokic með þrennu og Denver upp að hlið Golden State

Nikola Jokic skoraði 18 af 23 stigum sínum í seinni hálfleik þegar Denver Nuggets unnu tíu stiga sigur á Golden State Warriors, 114-104. Liðin eru þar með jöfn að stigum ásamt San Antonio um miðja vesturdeildina með 50% sigurhlutfall eftir 12 leiki.

Jokic skoraði ekki bara 23 stig heldur tók 14 fráköst og gaf 10 stoðsendingar, og náði þar með sinni 46. þrennu á ferlinum. Stephen Curry setti niður 14 af 23 skotum sínum og skoraði 35 stig. Hann er nú 15 þriggja stiga körfum frá því að jafna við Reggie Miller í 2. sæti yfir flesta þrista í sögu deildarinnar. Miller setti niður 2.560 þrista á sínum ferli. Ray Allen er efstur með 2.973 þrista.

Úrslit næturinnar:

  • Philadelphia 125 – 108 Miami
  • Toronto 111 – 108 Charlotte
  • San Antonio 105 – 109 Houston
  • Denver 114 – 104 Golden State
  • Portland 87 – 111 Indiana
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×