Körfubolti

Doncic magnaður í sigri Dallas og San Antonio vann aftur í Los Angeles

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luka Doncic var einu frákasti frá því að vera með þrefalda tvennu gegn Denver Nuggets.
Luka Doncic var einu frákasti frá því að vera með þrefalda tvennu gegn Denver Nuggets. getty/Matthew Stockman

Luka Doncic átti stórkostlegan leik þegar Dallas Mavericks sigraði Denver Nuggets eftir framlengingu, 117-124, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Slóveninn skoraði 38 stig, tók níu fráköst og gaf þrettán stoðsendingar. Þetta var annar sigur Dallas í röð.

Maxi Kleber kom Dallas yfir, 107-109, þegar rúmar þrjár sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma en Nikola Jokic tryggði Denver framlengingu í þann mund sem leiktíminn rann út. Jokic skoraði 38 stig, líkt og Doncic, þar af sautján í 4. leikhluta.

Í framlengingunni reyndist Dallas sterkari aðilinn, vann hana, 8-15, og leikinn með sjö stiga mun, 117-124.

San Antonio Spurs stöðvaði sigurgöngu meistara Los Angeles Lakers með 109-118 sigri í Staples Center.

LaMarcus Aldridge skoraði 28 stig fyrir San Antonio sem hefur unnið bæði Los Angeles-liðin, Lakers og Clippers, á útivelli í síðustu tveimur leikjum sínum. LeBron James skoraði 27 stig og gaf tólf stoðsendingar í liði Lakers.

Brooklyn Nets varð aðeins annað liðið til að vinna Philadelphia 76ers í vetur þegar liðið bar sigurorð af toppliði Austurdeildarinnar, 122-109, þrátt fyrir að vera án Kevins Durant og Kyrie Irving.

Joe Harris og Caris LaVert drógu vagninn hjá Brooklyn í nótt. Harris skoraði 28 stig og LaVert var með 22 stig og tíu stoðsendingar. Brooklyn hefur unnið tvo leiki í röð og er komið upp í 7. sæti Austurdeildarinnar.

Damian Lillard fór á kostum og skoraði 39 stig þegar Portland Trail Blazers vann Minnesota Timberwolves, 135-117, á heimavelli.

Þetta var sjötta tap Úlfanna í röð sem áttu ekki möguleika gegn Portland þrátt fyrir að fá 26 stig frá bæði D'Angelo Russell og Anthony Edwards.

Þá sigraði Cleveland Cavaliers Memphis Grizzlies, 90-94. Cleveland hefur komið mjög á óvart í vetur og er í 8. sæti Austurdeildarinnar með fimm sigra og fjögur töp.

Úrslitin í nótt

  • Denver 117-124 Dallas
  • LA Lakers 109-118 San Antonio
  • Brooklyn 122-109 Philadelphia
  • Portland 135-117 Minnesota
  • Memphis 90-94 Cleveland

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×