Handbolti

Ekkert mark frá íslensku línumönnunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Freyr Arnarsson hafði hægt um sig í íslensku sókninni gegn Portúgal.
Arnar Freyr Arnarsson hafði hægt um sig í íslensku sókninni gegn Portúgal. vísir/vilhelm

Línumenn íslenska handboltalandsliðsins skoruðu ekki mark í tapinu fyrir Portúgal, 26-24, í undankeppni EM 2022 í gær. Hornamaðurinn Arnór Þór Gunnarsson skoraði eina mark íslenska liðsins af línu í leiknum.

Arnar Freyr Arnarsson lék á línunni nánast allan fyrri hálfleikinn og Kári Kristján Kristjánsson tók svo stöðu hans í seinni hálfleik.

Þeim tókst ekki að skora og raunar átti hvorugur þeirra skot að marki í leiknum í gær. Þeir fiskuðu sitt hvort vítakastið.

Sé litið á skotdreifingu íslenska liðsins í leiknum í gær samkvæmt HB Statz komu aðeins tvö prósent skota þess af línunni. Hins vegar komu 24 prósent skota Portúgals af línu, jafn mörg og fyrir utan. Fjörtíu prósent skota íslenska liðsins voru aftur á móti fyrir utan.

Eina mark Íslands af línu í leiknum skoraði Arnór þegar hann fylgdi eftir eigin vítakasti sem Alfredo Quintana varði frá honum í fyrri hálfleik. Það var eitt þriggja víta sem fóru í súginn hjá íslenska liðinu í gær.

Ekki nýtt vandamál

Undanfarin ár hefur íslenska liðið sárlega vantað fleiri mörk af línunni svo vandamálið er ekki nýtt af nálinni. Á HM 2019 lék Arnar Freyr að mestu á línunni og skoraði tólf mörk í átta leikjum. Ýmir Örn Gíslason skoraði þrjú mörk en lék ekki mikið á mótinu.

Til að freista þess að auka sóknaraflið á línunni hóaði Guðmundur Guðmundsson aftur í Kára fyrir EM 2020.

Eyjamaðurinn var frábær í sigrinum á Dönum í fyrsta leik EM og skoraði fjögur mörk. Hann náði ekki alveg að fylgja því eftir og skoraði ellefu mörk í hinum sex leikjum Íslands á mótinu. Hinir línumennirnir, Arnar Freyr, Ýmir Örn Gíslason og Sveinn Jóhannsson, skoruðu einungis fimm mörk samanlagt á EM.

Í stórsigrinum á Litáen, 36-20, í undankeppni EM í nóvember á síðasta ári skoraði Ísland aðeins þrjú mörk úr sjö skotum af línunni. Arnar Freyr skoraði tvö þeirra en þurfti til þess fimm skot.

Í HM-hópi Guðmundar eru fjórir línumenn; Arnar Freyr, Kári, Ýmir og svo Elliði Snær Viðarsson sem fór ekki með til Portúgals.

Sá síðastnefndi er kannski þekktari fyrir góðan varnarleik og að vera snöggur fram en fyrir að vera sóknarlínumaður en hefur staðið sig með miklum ágætum á sínu fyrsta tímabili hjá þýska B-deildarliðinu Gummersbach. Athyglisvert verður að sjá hvort hann fái tækifæri gegn Portúgal á Ásvöllum á sunnudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×