Sport

Las á Facebook að fjölskylda hans hefði verið myrt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blake Bivens sagði frá skelfilegri upplifun sinni í messu sem var send út á samfélagsmiðlum.
Blake Bivens sagði frá skelfilegri upplifun sinni í messu sem var send út á samfélagsmiðlum. Mynd/Youtube

Hafnarboltamaðurinn efnilegi Blake Bivens upplifði hryllilega tíma í ágúst síðastliðnum og nú hefur hann talað um það í fyrsta sinn opinberlega.

Blake Bivens spilar með Tampa Bay Rays í neðri deildum hafnaboltans í Bandaríkjunum en menn sjá hann fyrir sér fara alla leið í MLB-atvinnumannadeildina.

Blake Bivens komst í fréttirnar síðasta haust en ekki fyrir framgöngu sína inn á hafnarboltavellinum heldur fyrir það sem kom fyrir hans fjölskyldu.

Nú hefur Blake Bivens sagt frá því hvernig hann komst að því að hann hafði missti sitt fólk með svo skelfilegum hætti.

Blake Bivens var að bíða eftir flugi frá Tennessee til síns heima í Virginiu þegar hann eyddi tímanum með að fara á netið.

Blake fór meðal annars á Facebook og þar komst hann að því að eiginkona hans, fjórtán mánaða sonur og tengdamamma hefðu öll verið myrt.

Bivens talaði um þessa hryllilegu upplifun sína í kirkju á sunnudaginn en messan var sýnd á fésbókinni.

„Fyrsta fyrirsögnin sem ég sé er að tvær konur og lítið barn væru dáin,“ sagði Blake Bivens.

„Ég vissi um leið að þetta væri þau. Ég komst að því að ég væri búinn að missa fjölskyldu mína með því að lesa fyrirsögn inn á fésbókinni. Ég byrjaði strax að öskra á miðjum flugvellinum,“ sagði Bivens.

Mágur Blake Bivens, Matthew Thomas Bernard, hefur verið ákærður fyrir morðin en hann er aðeins átján ára.

„Ég held að það erfiðasta við þetta allt saman var að labba inn í herbergi sonar míns og átta sig á fullu á því að ég átti aldrei eftir að sjá hann aftur á þessari jörðu,“ sagði Bivens.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×