Innlent

Ísland auki viðleitni í mansalsmálum

Snærós Sindradóttir skrifar
Á Íslandi viðgengst bæði kynlífsmansal og vinnumansal samkvæmt nýrri skýrslu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu. NordicPhotos/AFP
Á Íslandi viðgengst bæði kynlífsmansal og vinnumansal samkvæmt nýrri skýrslu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu. NordicPhotos/AFP
Skýrsla frá bandaríska utanríkisráðuneytinu segir að hér á landi séu konur fórnarlömb kynlífsmansals og bæði kyn séu seld vinnumansali. Konur frá Austur-Evrópu, Eystrasaltsríkjunum, Vestur-Afríku og Brasilíu séu seldar kynlífsmansali, oftast á næturklúbbum og börum.

Þá tíðkist vinnumansal í byggingariðnaði, fiskverkunum, ferðaþjónustu, veitingastöðum og í sambandi við au pair í heimahúsum. Í skýrslunni segir að þrælahaldarar misnoti reglur um frjálsa för fólks í gegnum Schengen-samstarfið og Evrópska efnahagssvæðið og nýti sér að hér geti fólk dvalið í þrjá mánuði án dvalarleyfis. Mansal sé ákaflega sjaldan tilkynnt til lögreglunnar.

Skýrsla bandaríska utanríkisráðuneytisins flokkar Ísland í sterkasta flokkinn af fjórum þegar kemur að mansali. Ísland var í öðrum flokki fram til ársins 2011 þegar það tók stökk vegna viðleitni yfirvalda til að vinna bug á mansali. Öll Norðurlöndin eru í sama flokki og Ísland.

Skýrsluhöfundar leggja til að íslensk yfirvöld auki verulega viðleitni sína til að ákæra og dæma þrælahaldara og auki fræðslu fyrir alla sem innan réttarvörslukerfisins starfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×