Innlent

Forseti ASÍ segir úrelt að nefnd ákveði verð á búvöru

Snærós Sindradóttir skrifar
Gylfi Arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson
Mjólk og mjólkurafurðir hækka um 3,5 prósent um næstu mánaðamót samkvæmt ákvörðun verðlagsnefndar búvöru. ASÍ og BSRB ákváðu fyrr á þessu ári að tilnefna enga fulltrúa fyrir hönd launþegahreyfingarinnar í nefndina.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, lítur ekki svo á að það hafi verið mistök að taka ekki þátt í nefndinni. „Það er alveg klárt að þetta fyrirkomulag er löngu búið að ganga sér til húðar.“

„Þegar við tókum þessa ákvörðun þá gerðum við kröfu til þess að þessi grein yrði felld undir ákvæði samkeppnislaga um samráð og fákeppni.“

Hann segir nefndina aldrei hafa haft aðgang að gögnum sem þurfti til að ræða verðlag með eðlilegum hætti. „Þessi ákvörðun núna um hækkun er algjörlega órökstudd. Ég skora á samkeppnisyfirvöld að fara í saumana á þessu.“

Elín Björg Jónsdóttir
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, tekur í sama streng. „Ég var mjög undrandi hversu há hækkunin væri til iðnaðarins. Það eru bændur og neytendur sem bera þennan kostnað fyrst og síðast.“ 

Hækkunin á mjólkurvöru nemur 3,58 prósentum. Nema verð á smjöri sem hækkar um 11,6 prósent. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×