Enski boltinn

Everton mætir Chelsea í úrslitum enska bikarsins

Leikmenn Everton fagna sigrinum
Leikmenn Everton fagna sigrinum AFP

Everton tryggði sér í dag sæti í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar með sigri á Manchester United í maraþonleik þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í vítakeppni.

Markalaust var eftir venjulegan leiktíma og framlengingu en taugar þeirra bláklæddu héldu betur í vítakeppninni og því er draumur United um að vinna fjórfalt í vetur úr sögunni.

Tim Howard, markvörður Everton og fyrrum leikmaður Manchester United, varði tvær spyrnur í vítakeppninni og því mætir Everton Chelsea í úrslitaleiknum í maí.

Ben Foster var hetja United í úrslitaleik deildabikarsins fyrir tveimur mánuðum, en honum tókst ekki að endurtaka leikinn í dag.

Ekki er hægt að segja að mörg marktækifæri hafi litið dagsins ljós í leiknum í dag þar sem Manchester United mætti til leiks með nokkra af varamönnum sínum.

Foster gerði mistök í marki United og var næstum búinn að gefa fyrrum United manninum Louis Saha mark og Joleon Lescott hjá Everton varnaði því að Danny Welbeck næði forystu fyrir United. Tim Cahill og Park Ji-sung áttu líka góð færi, en umdeildasta atvik leiksins var án efa þegar Phil Jagielka virtist brjóta á Welbeck innan teigs en dómarinn sá ekki ástæðu til að dæma víti.

Tim Cahill þrumaði boltanum yfir markið úr fyrstu spyrnu Everton í vítakeppninni, en Howard varði bæði frá Dimitar Berbatov og Rio Ferdinand. Það var svo Jagielka sem sendi Everton í úrslitaleikinn með síðustu spyrnu liðsins.

Everton er nú að spila til úrslita í keppninni í fyrsta skipti síðan árið 1995.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×