Erlent

Stríðsloka í Evrópu minnst

Bush Bandaríkjaforseti viðurkenndi í ræðu í gær í Lettlandi að Bandaríkjamenn hefðu átt sinn þátt í að járntjald skipti Evrópu í tvennt um áratuga skeið. Í dag eru sextíu ár liðin síðan nasistar gáfust upp fyrir herjum bandamanna. Mikið er um dýrðir víða í Evrópu þessa dagana í tilefni stríðslokaafmælisins. Í gær fögnuðu Frakkar því að sextíu ár eru síðan nasistastjórnin í landinu gafst upp en friðarsamningarnir voru undirritaðir í borginni Reims 7. maí 1945. Michele Alliot-Marie, varnarmálaráðherra Frakklands, minntist fórnarlamba stríðsins og sagði að hetjudáðir þeirra sem á endanum frelsuðu Evrópu myndu alla tíð lifa í hjörtum íbúa álfunnar. "Það var í Reims sem Evrópa naut sinna fyrstu frelsisstunda," sagði Jean Louis Schneiter, borgarstjóri í tilefni tímamótanna. Í dag eru svo liðin sextíu ár síðan vopnahléssamningar voru undirritaðir í Berlín og verður þess víða minnst í dag, til dæmis í Frakklandi, Bretlandi og vitaskuld Þýskalandi. Á morgun verða mikil hátíðarhöld í Moskvu þar sem á fimmta tug þjóðarleiðtoga koma saman. Leiðtogar Eistlands og Litháen ætla hins vegar að sitja heima enda boðuðu lok síðari heimsstyrjaldar ekki betri tíð fyrir íbúa Eystrasaltsríkjanna. George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, kom við í Lettlandi í gær á leið sinni til Moskvu. Í ræðu sinni í höfuðborginni Ríga sagði hann að harðstjórnar Sovétmanna í Mið- og Austur-Evrópu myndi ætíð verða minnst sem einhvers mesta óréttlætis sögunnar. Hann viðurkenndi þó að Bandaríkjamenn hefðu átt sinn þátt í að kljúfa álfuna með því að taka þátt í Jalta-samkomulaginu svonefnda með Bretum og Sovétmönnum, en þar var Evrópu skipt upp í áhrifasvæði sigurvegara heimsstyrjaldarinnar. "Enn og aftur sömdu stórveldi sín á milli um örlög þjóða og í þeim samningum var frelsi litlu þjóðanna aukaatriði." Bush sagði að það hefði verið þversagnarkennt að sigurinn á nasistum hefði falið í sér að kúgun stórs hluta Evrópubúa hélt áfram næstu 45 árin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×