Innlent

Rauðakrosshúsið standsett - óska eftir húsgögnum

Sjálfboðaliðar að störfum í húsnæðinu í gær.
Sjálfboðaliðar að störfum í húsnæðinu í gær.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins vinna nú hörðum höndum við að standsetja húsnæði í Borgartúni 25 þar sem Rauðakrosshúsið tekur brátt til starfa. Þar gefst fólki kostur á að koma inn af götunni og leita sér hjálpar í þeim þrengingum sem gengið hafa yfir þjóðina. Stefnt er að því að opna í næstu viku en Rauði krossinn auglýsir nú eftir góðhjörtuðum einstaklingum sem eru í aðstöðu til þess að láta húsinu í té skrifstofubúnað og annað þess háttar.

„Okkur vantar stóla sem hægt er að stafla upp og skilrúm, það er svona það sem okkur vantar helst," segir Gunnhildur Sveinsdóttir hjá Rauða krossinum. „Svo þætti okkur mjög vænt um ef einhver gæti látið okkur hafa stórar plöntur svo við getum gert þetta svolítið huggulegt," segir Gunnhildur og bætir við að öll hjálp sé vel þegin.

Gunnhildur segir að á meðal hlutverka Rauða krossins í neyðarástandi sé að sinna félagslegu neyðarstarfi. „Hugmyndin á bak við Rauðakrosshúsið er að skapa aðstöðu fyrir alla, ekki bara fyrir atvinnulausa, þar sem fólk getur leitað eftir sálrænum stuðningi og fengið upplýsingar um öll þau úrræði sem eru í gangi."

Í raun er um einskonar útvíkkun á hjálparsíma Rauða krossins, 17 17, að ræða að sögn Gunnhildar. „Við fáum ríflega 70 hringingar á hverjum degi þar sem fólk er að leita eftir ráðleggingum um hvert það geti leitað í núverandi ástandi." Hugmyndin er því að byggja ofan á þetta með því að gefa fólki kost á að koma við og ræða við sérfræðinga á vegum samtakana. „Hér verða sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar og prestar sem eru í áfallateymi Rauða krossins sem geta veitt fólki sérfræðiviðtöl en sú þjónusta verður ókeypis. Kirkjan verður einnig í samstarfi við okkur og með fulltrúa á staðnum," segir Gunnhildur.

Að sögn Gunnhildar stendur einnig til að koma á fót námskeiðum og hópastarfi í húsnæðinu í framtíðinni. „Það á eftir að mótast eftir því hvaða hugmyndir gestir hússins hafa. Svo verða tölvur hérna og aðgangur að Interneti, barnahorn og kaffiaðstaða," segir Gunnhildur ennfremur og bætir því við að ýmsar pælingar séu í gangi varðandi framtíðina.

Stefnt er að því að opna Rauðakrosshúsið í Borgartúni 25 í lok næstu viku.

Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta hringt í 570 4000 á skrifstofutíma eða sent póst á raudakrosshusid@redcross.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×