Innlent

Íslendingar ferðast meira um eigið land

Erna Hauksdóttir framkvæmdastjóri Samtaka Ferðaþjónustunnar
Erna Hauksdóttir framkvæmdastjóri Samtaka Ferðaþjónustunnar

Um þriggja prósenta aukning varð á fjölda gistinótta á Íslandi á milli áranna 2007 og 2008. Mesta aukningin var á Vestfjörðum, gistinóttum fækkaði aftur á móti mest á Vesturlandi. Ferðamönnum frá Afríku og Mið- og Suður-Ameríku fjölgaði hlutfallslega mest. Þetta kemur fram í gistiskýrslu Hagstofunnar fyrir árið 2008.

Heildarfjöldi gistinátta var 2,7 milljónir árið 2008, það er 2,7% aukning frá fyrra ári. Gistinætur Íslendinga voru 791.800 og útlendinga 1.924.672. Mest varð aukningin á tjaldsvæðum en minnst á hótelum. Ferðamönnum frá Afríku fjölgaði mest, eða um 60% og aukning ferðamanna frá Mið- og Suður-Ameríku var rúm 36%.

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að þó þessar prósentutölur séu vissulega háar, þá sé ekki um mikla fjölgun á ferðamönnum frá Afríku og Mið- og Suður-Ameríku að ræða, hingað komi ekki margir frá þessum löndum. Fjöldi ferðamanna frá Bandaríkjunum og Evrópu hefur nánast staðið í stað og að sögn Ernu er það fyrst og fremst vegna efnahagsástandsins.

Fjölgun Íslendinga á tjaldsvæðum

Gistinóttum fjölgaði í flestum landshlutum árið 2008. Aukningin var mest á Vestfjörðum eða 16,4% en höfuðborgarsvæðið stóð nánast í stað. Tæp 42% gistináttanna voru á höfuðborgarsvæðinu eins og verið hefur undanfarin ár. Gistinóttum fækkaði mest á Vesturlandi, eða um 2,8%.

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að greinilegur munur er á vali Íslendinga og útlendinga á gististöðum og áfangastöðum á ferðalögum. 54,2% gistinátta Íslendinga voru á hótelum og gistiheimilum árið 2008 en 78,8% gistinátta útlendinga. Íslendingum fjölgaði á tjaldsvæðum árið 2008. „Reyndar hefur eru Íslendingar farnir að ferðast miklu meira um landið okkar en verið hefur og ég býst ekki við öðru en að sú þróun muni halda áfram," segir Erna.

Mismunandi ferðamynstur eftir þjóðerni

Rúmlega helmingur gistinátta útlendinga var á höfuðborgarsvæðinu en töluverður munur er á vali áfangastaða eftir ríkisfangi. Norðurlandabúar velja höfuðborgarsvæðið fram yfir landsbyggðina en aðrir Evrópubúar vörðu hins vegar aðeins 42% gistinátta sinna á höfuðborgarsvæðinu. Aðrar þjóðir dvöldu 63% gistinátta sinna á höfuðborgarsvæðinu.

Erna segir töluverðan mun á því á hvað ferðamenn leggja áherslu á þegar þeir koma hingað til lands. „Það er misjafnt eftir hverju fólk er að leita. Til dæmis eru Þjóðverjar og Frakkar duglegir við að fara á fjöll, Bandaríkjamenn sækjast heldur í að vera á höfuðborgarsvæðinu. Norðurlandabúar og Bretar koma talsvert í styttri ferðir og helgarferðir, ekki síst utan háannatímans."

Töluverð aukning hefur orðið á heildarfjölda gistinátta síðustu 10 ár. Árið 1998 voru gistinætur 1.540.678 en árið 2008 voru þær 2.716.472. Það er 76,3% aukning. Á þessum tíma hafa gistinætur útlendinga nærri tvöfaldast og gistinóttum Íslendinga fjölgað um 51%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×