Handbolti

„Guðjón Valur afsannar þá kenningu að allt sem fer upp komi aftur niður“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón Valur lék með íslenska landsliðinu í 21 ár.
Guðjón Valur lék með íslenska landsliðinu í 21 ár. vísir/andri marinó

„Ferilinn hans er lyginni líkastur. Hann er markahæsti landsliðsmaður sögunnar. Sem samherji fattaði ég fljótt að það var nóg að gefa á hann niður í hornið og hann skoraði alltaf. Hann er með þvílíkt sjálftraust, karakter og vægast sagt stórkostlegur leikmaður,“ sagði Logi Geirsson þegar blaðamaður Vísis bað hann um að lýsa Guðjóni Val Sigurðssyni sem tilkynnti í morgun að hann væri hættur í handbolta.

Logi segir að Guðjón Valur sé einfaldlega einn af allra bestu leikmönnum handboltasögunnar.

„Hann er í hópi 20 bestu handboltamanna allra tíma. Hann hefur verið markahæstur í Þýskalandi, meistari í fjórum löndum og lykilmaður í landsliðinu,“ sagði Logi.

Guðjón Valur í kunnuglegri stöðu, langfyrstur fram í hraðaupphlaupi.vísir/getty

Skildu ekki hvernig hann var alltaf fljótastur

Hann segir að Guðjón Valur hafi lagt gríðarlega hart að sér við æfingar og hafi alltaf verið í frábæru formi.

„Hann æfði meira en allir. Hann hugsaði vel um sig. Hann spilaði á hæsta getustigi til fertugs. Tvítugir gæjar gátu ekki slegið hann út,“ sagði Logi.

„Ég þekki til í Þýskalandi og þeir skilja ekki enn hvernig hann var alltaf fljótastur þrátt fyrir aldurinn. Horfðu á ferilinn hans, hversu marga leiki hann spilaði. Hann var alltaf til staðar og nánast aldrei meiddur. Hann er langbesti vinstri hornamaður sem ég spilaði með og þeir voru margir.“

Guðjón Valur skorar eitt 1879 marka sinna fyrir íslenska landsliðið.vísir/andri marinó

Goðsögn í handbolta

Guðjón Valur lék í meistaraflokki í aldarfjórðung og með íslenska landsliðinu í 21 ár.

„Þetta er einstakur íþróttamaður og verið á toppnum í svo mörg ár. Hann er goðsögn í handbolta. Menn átti sig kannski ekki á því fyrr en eftir 5-10 ár. Þá verður talað um hann í guðatölu,“ sagði Logi.

Guðjón Valur Sigurðsson varð franskur meistari á sínu síðasta tímabili á ferlinum.vísir/getty

Einkaleyfi á einkennismarkinu

Logi segir að verði viðbrigði að sjá ekki Guðjón Val lengur hlaupa langfyrstan fram í hraðaupphlaupi og skora sitt einkennismark.

„Hann á að fá einkaleyfi á því. Taka boltann upp með hægri í efstu stöðu, fara upp og klessa boltanum í gólfið nær,“ sagði Logi. „Hann er einstakur. Þú finnur engan sem hefur verið svona góður svona lengi.“

Á síðasta tímabilinu á ferlinum lék Guðjón Valur með Paris Saint-Germain, stórliði sem getur fengið nánast hvaða leikmann sem það vill. Samt valdi það fertugan Guðjón Val. Logi segir að hann hafi hætt á toppnum.

„Hann afsannar þá kenningu að allt sem fer upp kemur aftur niður,“ sagði Logi að lokum.


Tengdar fréttir

Guðjón Valur hættur

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, tilkynnti það á Instagram að hann sé búinn að leggja handboltaskóna á hilluna
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.