Innlent

Enginn brennumannanna játar að hafa kveikt eldinn

Vísa hver á annan Jón Kristinn og Ríkharð huldu andlit sín í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Vísa hver á annan Jón Kristinn og Ríkharð huldu andlit sín í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Þrír menn, sem ákærðir eru fyrir að kveikja í húsi við Kleppsveg í júní og stofna lífi manns sem var þar inni í hættu, neita því allir og benda hver á annan. Þetta kom fram við aðalmeðferð málsins í gær.

Mönnunum þremur ber ekki saman um það hvers vegna þeir óku á ofsahraða, drukknir og í fíkniefnavímu, að húsinu að morgni 6. júní frá súlustaðnum Goldfinger, sem er í eigu föður eins sakborningsins, Jóns Kristins Ásgeirssonar. Jón Kristinn, 23 ára, segist hafa ætlað að nálgast upplýsingar um annan mann hjá húsráðanda, sem er góðvinur föður hans.

Annar, Ríkharð Júlíus Ríkharðsson, 30 ára, segist hafa átt óuppgerðar sakir við húsráðanda vegna hótana í garð hans og fjölskyldu hans og sá þriðji, Karl Halldór Hafsteinsson, 28 ára, segist hafa verið dreginn með í ferðina og ekkert vitað. Með í för var systir Jóns Kristins, en hún segist hafa verið hálfsofandi í bílnum mestallan tímann. Hún er ekki ákærð.

Þegar að húsinu kom fóru þremenningarnir út úr bílnum, Ríkharð tók að banka á hurð hússins og þegar enginn kom til dyra hellti einhver þeirra bensíni á hurðina og síðan var kveikt í því.

Mönnunum ber ekki saman um hver hellti bensíninu og hver kveikti í og vísa hver á annan. Karl segir Jón Kristin hafa hótað sér og beðið sig um að taka á sig sökina. Þá geta vitni úr nálægum húsum ekki sagt til um það hver var að verki. Þeir segja hins vegar allir að sér hafi brugðið mjög þegar eldurinn blossaði upp eftir sprengingu innandyra og þeir hafi allir ætlað að slökkva eldinn, en slökkvitæki sem þeir voru með hafi ekki virkað.

Húsráðandanum tókst að forða sér út úr húsinu á nærbuxunum með óvirkt slökkvitæki í höndunum. Hann kom fyrir dóminn og sagðist ekki hafa talið sig í bráðri hættu innandyra. Þessu er verkfræðingur sem lögregla fékk til að meta aðstæður ósammála. Eini fullnægjandi útgangurinn úr húsinu hafi logað og húsið hefði getað brunnið mjög hratt. Það var stórskemmt á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×