Sport

Stál í stál á Riverside

Bæði lið áttu ágætis færi í byrjun leiks, en það var Boudewijn Zenden sem kom heimamönnum yfir á 26. mínútu með laglegu skoti, eftir góðan undirbúning landa síns Jimmy Floyd Hasselbaink. Alan Stubbs varnarmaður Everton, náði að slæma fætinum í knöttinn, en hann hrökk af slánni og í netið. Everton liðið var nálægt því að jafna nokkrum sinnum í fyrrihálfleik, en allt kom fyrir ekki. Boro liðið átti betri færi í síðari hálfleik en Richard Wright sá við þeim í markinu. Þó átti James Beattie, sem var að leika sinn fyrsta deildarleik með Everton, ágætt skot sem hafnaði í stönginni á marki Boro. Vendipunkturinn í leiknum varð svo þegar um stundarfjórðungur var eftir, þegar Duncan Ferguson kom inná sem varamaður.. Ferguson, sem var að koma úr þriggja leikja banni, lét ekki sitt eftir liggja og lagði upp jöfnunarmark Tim Cahill fyrir Everton. Skoski vandræðagemlingurinn kom skömmu síðar aftur við sögu þegar hann var full aðgangsharður við Mark Schwarzer í marki Boro og sparkaði í hann, með þeim afleiðingum að upp hófust miklar riskingar inni í marki heimamanna. Dómarinn hafði þó gott vald á aðstæðum og hélt leikurinn áfram snurðulaust þangað til flautað var til leiksloka og niðurstaðan 1-1 jafntefli. Lið Everton er í 4. sæti í deildinni með 44 stig, en Boro hefur 36 stig í því sjötta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×