Skoðun

Strætó og skipulagsmál

Einar Gunnar Birgisson skrifar

Hann er nú ekki langur afreka­listinn hjá nýjum meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Forljótar strípur á Hverfis­götunni og annað í þeim dúr telst vart til afreka en við sjáum hvað setur. Hvað skipulagsmál varðar þá heyri ég hvorki hósta né stunu frá nýja meirihlutanum í borgarstjórn um flugvöllinn skrýtna í Vatnsmýrinni. Kannski er því Besti Flokkurinn kominn í sama gírinn hvað flugvöllinn varðar og fjórflokkurinn sem lítur á flugvöllinn sem heilaga kú sem ber að vernda í bak og fyrir.

Völlur breytinganna í borginni er greinilega strætó og í vagnana eru komnar raddtilkynningar með tilheyrandi bjölluglamri sem tilkynna hvaða stoppistöð er næst og þegar stoppað er á viðkomandi stöð. Oft eru stoppistöðvar skírðar nöfnum sem segja fólki ekki neitt. Þessi nýja „þjónusta" sem kannski nýtist 1% farþega er pirrandi og þreytandi plága og angrar allt venjulegt fólk og flesta vagnstjórana. Kvörtunum rignir yfir strætó vegna þessa en reynt er að fela það og óánægju vagnstjóra og gera lítið úr öllu saman. Látið er að því liggja að almenn ánægja sé með uppá­tækið og fáeinir kverúlantar á móti þessu. Þar að auki er ætlunin að setja upp skjái í vögnum sem sýna hvaða stoppistöð er næst. Það er góð hugmynd og er þá lítið eftir af rökum fyrir raddtilkynningum og bjölluglamri því allir ættu að vera læsir.

Ferðamenn geta lesið af skjánum og hafa ekkert að gera með raddtilkynningar því þeir skilja illa íslenskan framburð. Blindir geta ekki lesið af þessum skjáum en kannski sjónskertir því letrið er mjög stórt. Ég hef bent á góða lausn fyrir blinda og sjónskerta sem felst í því að tilkynningar þessar megi heyra í heyrnartólum sem geta verið við fremstu sæti í vagni og tvö heyrnartól ættu að nægja í hverjum vagni. Þá geta þeir sem vilja hlustað á þessar tilkynningar og bjölluglamur en við hin fáum frið fyrir plágunni. Ég hef reyndar aldrei séð blinda manneskju í strætó en það er önnur saga. Vandinn er sá að yfirmenn strætó ætla sér að troða þessum raddtilkynningum og bjölluglamri uppá alla farþegana og líka þá farþega sem vilja ekki hlusta á þvæluna. Þeir vilja vísast fækka farþegum. Kannski væri réttast að hafa svona raddtilkynningar og bjöllu­glamur í einkabílum yfirmanna strætó og sjá hvernig þeim líkar plágan.

Yfirmenn strætó og nokkrir aðilar í borgarstjórn hafa sett fram hugmyndir um að láta BSÍ taka við hlutverki Hlemms og Lækjartorgs sem miðstöð strætósamgangna. Þetta var tilkynnt með miklum fagnaðarlátum af fólki sem aldrei notar strætó og þetta virðist vera í anda hugmynda um umhverfis­vænan miðbæ. Það gleymist að BSÍ er ekki miðpunktur eins né neins og fórnarlömbin verða farþegar strætó sem vanir eru að bruna beint í miðbæinn og á háskólasvæðið, en þurfa þá að skipta yfir í annan vagn með tilheyrandi tímatöfum og veseni. Allar þessar fyrrnefndu breytingar eru gerðar af fólki sem virðist halda að strætófarþegar séu vangefnir upp til hópa eða að um gripaflutninga sé að ræða. Í stíl við þennan hugsunarhátt eru flest strætóskýlin sem halda hvorki vatni né vindum og það að salernis­aðstaðan fyrir farþega á Hlemmi er í formi útikamars.








Skoðun

Sjá meira


×