Handbolti

Mariam Eradze heim til Íslands og búin að semja við Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mariam Eradze og Lovísa Thompson hafa spilað saman með yngri landsliðunum og eru núna orðnar liðsfélagar hjá Val.
Mariam Eradze og Lovísa Thompson hafa spilað saman með yngri landsliðunum og eru núna orðnar liðsfélagar hjá Val. Mynd/HSÍ

Landliðskonan Mariam Eradze hefur ákveðið að koma heim til Íslands og er búin að gera þriggja ára samning við Val í Olís deild kvenna í handbolta.

Mariam Eradze er fjölhæfur leikmaður sem hefur verið að banka á dyrnar hjá A-landsliðinu að undanförnu.

Mariam kemur frá franska liðinu Toulon Saint-Cyr en hún er 21 árs, fædd árið 1998. Mariam er dóttir Rolands Vals Eradze sem lék með Val á árunum 2000 til 2004.

Mariam fór ung út í atvinnumennsku en hún fór á sínum tíma frá Fram til As Cannes. Mariam hefur verið í yngri landsliðum Íslands undanfarin ár og var valin í A-landsliðið nú á dögunum. Hún á að baki 120 leiki í efstu deild í Frakklandi.

„Mariam er ung og mjög efnileg bæði í vörn og sókn. Hún getur leikið allar stöðurnar fyrir utan og sterk í vörn. Hún passar vel inn í okkar hóp og verður gaman að sjá hana í Valstreyjunni,“ sagði Ágúst Jóhannsson þegar hann var spurður út í nýja leikmanninn á fésbókarsíðu Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×