Sport

Kezman sá rautt

Mateja Kezman hélt áfram að skora mörk en var jafnframt rekinn út af fyrir Chelsea í æfingaleik gegn Roma í Bandaríkjunum í fyrrinótt. Þótt að um æfingamót sé að ræða gæti rauða spjaldið þýtt að Kezman verði í banni í upphafi ensku úrvalsdeildarinnar sem hefst eftir tvær vikur og missi þannig af fyrsta leik liðsins við Manchester United. Kezman hlaut spjaldið eftir að hafa veist að franska miðjumanninum Oliver Dacourt, en hann tæklaði niður Hollendinginn Arjen Robben að óþörfu. Dacourt brást hinn versti við og þurftu samherjar beggja leikmanna að slíta þá í sundur rétt áður en alvöru götuslagsmál voru um það bil að hefjast. Báðir fengu þeir rautt spjald. Leikurinn sjálfur var hinsvegar eign Chelsea frá upphafi og fór liðið með öruggan 3-0 sigur af hólmi. Eiður Smári Guðjohnsen lék fyrri hálfleikinn en náði ekki að skora mark. Joe Cole skoraði fyrsta markið í fyrri hálfleik en í þeim síðari bættu Kezman og Didier Drogba, sem var að leika sinn fyrsta leik fyrir Chelsea, við einu marki hvor.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×