Skoðun

Fiskveiðistjórnun og byggðaþróun

Sigurjón Haraldsson skrifar
Það er ljóst að sjávarútvegur er án nokkurs efa ein mikilvægasta atvinnugrein Íslendinga. Við vitum að fiskurinn er takmarkaður í sjónum og fiskveiðar þurfa að taka mið að því að fiskistofnar fái tækifæri til að viðhalda sér. Því er fiskveiðistjórnun nauðsynleg til að gæta þess að við göngum ekki um of á fiskistofna og rýri þannig getu þeirra til að endurnýja sig.

Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfiVið höfum þá reynslu af núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi að ýmislegt í þessu kerfi hefur verið gallað. Þegar núverandi kerfi var sett á laggirnar var ekki mikið rætt um þær afleiðingar sem slíkt kerfi gæti haft á byggðaþróun í landinu. Nú hafa ýmsir gallar komið í ljós og ljóst að mörg sveitarfélög á landsbyggðinni hafa farið hallloka. Framsali kvóta hefur bæði verið hrósað og andmælt, flestum kunnugt og því ekki rakið frekar hér í greininni.

Byggðaþróun og fiskveiðistjórnunFrumvarp til nýs fiskveiðistjórnunarkerfis á ekki að ræða nema um leið fari fram opinská umræða um byggðaþróun, þ.e.a.s. hvernig nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi geti nýst til að örva búsetuskilyrði á landsbyggðinni og hvernig það geti nýst til að byggja upp öflugt efnahagskerfi og efla heildarhagsmuni þjóðarinnar. Við búum við kerfi sem er gallað, en er hægt að bæta. Á því hvíla ákveðnar skuldbindingar sem ekki er hægt að afnema með einu pennastriki án þess að fjöldi útgerða fari í gjaldþrot og ýmis byggðalög munu verða enn verr úti.

Til að innleiða nýtt kerfi, verður að taka tillit til þeirra útgerða sem hafa nú þegar þann kvóta sem er leyfilegur. Við höfum ekkert í farvatninu sem segir að það séu einhverjir aðrir einstaklingar sem geti náð út meiri hagkvæmni í veiðum en þau fyrirtæki sem stunda þetta í dag og hafa gert um árabil, en samt þarf að vera svigrúm til nýliðunar í greininni. Sú nýliðun má hins vegar ekki vera í því formi að hleypa inn nýjum skussum á kostnað vel rekinna fyrirtækja. Hins vegar þarf að setja hvata í kerfið sem hyglir góðri arðsemi og losar okkur við skussa sem hafa ekki það að markmiði að ná sem mestum arði fyrir byggðalögin og þjóðina í heild.

En hvað er til ráðaVið erum með takmarkaða auðlind og verðmæti hennar ráðast á markaði en ekki í huga einstakra bankastarfsmanna. Ef við ætlum að hugsa um byggðaþróun í landinu, þá liggur það ljóst fyrir að afnema þarf pólitísk afskipti af greininni og taka upp byggðakvóta. Ein hugmynd gæti t.d. verið sú að útgerðir gætu fengið sjálfkrafa úthlutað afla í hlutfalli við greidda skatta, opinber gjöld og lönduðum afla í viðkomandi sveitarfélagi. Það leiðir til þess að þær útgerðir sem greiða hæstu gjöld í formi launa og launatengdra gjalda í viðkomandi sveitarfélagi myndu fá hæsta úthlutun. Það væri því eðlilegra að auðlindagjald væri greitt í gegnum skattkerfið þar sem renta ræður úthlutun og allir greiða sama hlutfall af hagnaði. Þeir sem ná ekki að reka útgerðina með hagnaði fá því minna úthlutað. Þetta þarf líka að ná yfir ákveðið tímabil þannig að úthlutun ætti sér t.d. stað á 5 ára fresti. Framsal veiðiheimilda milli byggðalaga ætti að vera bannað, nema með skiptikvóta. Þannig myndu byggðalög alltaf halda sama kvóta þó svo að tegundir myndu breytast.

Aðlögun að nýju kerfi ætti að taka skemmri tíma en núverandi frumvarp, því útgerðirnar þurfa ekki annað en að skrá skipsáhafnir í viðkomandi sveitarfélögum og landa þar afla til að halda núverandi kvóta. Með því að úthluta byggðakvóta í samræmi við arðsemi og skatttekjur til viðkomandi sveitarfélags, þá myndi þetta tryggja að ákveðinn kvóti haldist í sveitarfélögum landsins. Núverandi útgerðir sem ekki bera sig myndu innan 5 ára eiga á hættu að missa kvótann, nema til kæmi verulegur viðsnúningur á rekstrinum. Á endanum myndu hagkvæmustu útgerðirnar halda mesta kvótanum.

Þetta er fyrst og fremst hugmynd um það hvort við viljum nota fiskveiðistjórnunarkerfið til að efla byggðaþróun í landinu eða ekki. Núverandi frumvarp gerir ráð fyrir pólitískum afskiptum ráðherra og ríkisstjórna og stuðla að hrepparíg og samfélagslegri sundrung þjóðarinnar.

Stærsti hagnaður þjóðarinnar af þessari auðlind er sá arður sem sjávarútvegsfyrirtækin skapa með betri framlegð, hærri skatttekjum af starfseminni og margföldunaráhrifum sem felast í getu þeirra til að endurnýja tæki og búnað til að ná enn betri framlegð og hagnaði.

Stjórnmálaflokkurinn Hægri Grænir vill stuðla að sjálfbærni fiskveiða og að unnið sé í samvinnu við núverandi útgerðarfyrirtæki, sem hafa þrátt fyrir ýmislegt gagnrýnivert unnið að mikilli þróun og hagræðingu í greininni. Hvati útgerðarfyrirtækja til að skila betri arði og uppbyggingu felst ekki í ofurskattlagningu sem drepur allt frumkvæði og hagræðingu í greininni.




Skoðun

Sjá meira


×