Erlent

Óttast að Al-Kaída fremji tölvuhryðjuverk í náinni framtíð

Varnamálaráðuneytið í Pentagon.
Varnamálaráðuneytið í Pentagon.
Yfirmaður tölvuhernaðardeildar varnamálaráðuneytisins í Bandaríkjunum, Keith Alexander, óttast að hryðjuverkasamtökin Al-Kaída gætu tileinkað sér nýja tækni á næstu árum og þannig reynt að fremja hryðjuverk gegn Bandaríkjunum í gegnum tölvur.

AP fréttastofan greinir frá því að Alexander telji að hryðjuverkasamtökin búi ekki yfir þekkingunni til þess að fremja hryðjuverk í Bandaríkjunum í gegnum tölvur í dag, en samtökin séu þó að aðlagast nýjum heimi þar sem tölvuárásir gætu orðið jafn áhrifaríkar og önnur hryðjuverk.

Alexander vill einnig að bandaríska þingið skerpi á lögum og heimildum opinberra stofnanna svo þær geti varið sig gegn alvarlegum tölvuárásum. Hann segir þetta afar mikilvægt enda fari hættan sívaxandi.

Líklega er nærtækasta dæmið um meiriháttar tölvuárás Stuxnet vírusinn, sem olli gríðarlegum skaða í kjarnorkuverinu Natanz í Íran, þar sem ríkisstjórn landsins vann að því að auðga úraníum. Vírusinn var afar háþróaður og varð til þess að vindur í verksmiðjunni biluðu með gríðarlegum tilkostnaði fyrir íranska ríkið, og líklega seinkaði það kjarnorkuáformum þess um nokkur ár.

Ekki er vitað hver kom vírusnum fyrir, en sérfræðingar segja það nær öruggt að árásin hafi verið hernaðaraðgerð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×