Innlent

Staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurð

Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karlmanni sem grunaður er um að hafa höfuðkúpubrotið annan karlmann í Öxnadal í síðustu viku. Talið er að hann hafi barið manninn með hafnaboltakylfu.  Maðurinn var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald sem rennur út á mánudag. Hann kærði þann úrskurð til Hæstaréttar sem staðfesti hann í dag þar sem óttast var að maðurinn gæti torveldað rannsókn málsins, til dæmis með því að hafa áhrif á vitni, gengi hann laus. Það var á aðfararnótt fimmtudags í síðustu viku sem lögregla og sjúkralið var kallað í Öxnadal vegna karlmanns á fertugsaldri sem hafði slasast. Tvennt var auk hans á staðnum þegar að var komið og sú skýring gefin að til deilna hefði komið í bíl og maðurinn slasast við það að fara út úr bílnum. Hinn slasaði höfuðkúpubrotnaði, það blæddi inn á heila, auk þess sem hann kinnbeins- og nefbrotnaði. Fljótlega kom í ljós að ekki var allt með felldu og á daginn kom að sjö manns voru á staðnum þegar maðurinn hlaut áverkana, þar af tvö börn. Í framhaldinu var karlmaður á þrítugsaldri handtekinn, grunaður um að hafa barið fórnarlambið með hafnaboltakylfu. Í úrskurði Héraðsdóms segir að samkvæmt lækni hefðu áverkarnir hæglega getað leitt til mun alvarlegri afleiðinga og jafnvel dauða. Rannsókn málsins er í fullum gangi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×