Innlent

Á fimmta þúsund manns í göngu gegn umferðarslysum

Góð þáttaka er í göngum sem farnar eru til þess að mótmæla umferðarslysum og skipulagðar voru af heilbrigðisstarfsfólki. Gengið er í Reykjavík, á Akureyri og á Selfossi. Hátt á þriðja þúsund manns taka þátt í göngunni í Reykjavík og á Akureyri telur lögregla að um 250 manns hafi tekið þátt.

Göngurnar hófust klukkan fimm. Í Reykjavík var gengið frá Landspítalanum á Hringbraut þaðan sem gengið verður að þyrlupallinum við Landspítalann í Fossvogi.

Þrátt fyrir að banaslysum hafi fækkað verulega á fyrstu mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra hefur alvarlegum slysum fjölgað mjög á sama tímabili.

Auk göngunnar í Reykjavík fara fram göngur á Selfossi og Akureyri á vegum heilbrigðisstarfsfólks í þeim bæjum. Á Selfossi verður gengið frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og á Akureyri frá Fjórðungssjúkrahúsinu. Göngurnar hefjast klukkan 17 eins og í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×